Alda karen bregst við skaupinu: vill finna geim­fara með frunsu og njálg til að kela við

Fyrir­lesarinn Alda Karen Hjalta­lín vakti mikla at­hygli á árinu og kom það því fáum á ó­vart að hún hafi verið tekin fyrir í Ára­móta­skaupinu. Dóra Jóhanns­dóttir fór með hlut­verk Öldu með glæsi­brag þar sem hún kyssti peninga, heimilis­tæki, bíla og fleira til að öðlast það endur­gjalds­laust.

„Ára­tuga­mark­miðið mitt er að komast út í geim,“ sagði Alda Karen á fyrsta degi ársins á Insta­gram. „Nú þarf ég bara að finna geim­fara með frunsu og njálg til að kela við.“


Mælir með að nota smá tungu


Í at­riði Skaupsins um Öldu Karenu sést hinn um­ræddi fyrir­lestur Þú ert nóg fyrir fullum sal í Hörpu. Eða líkt og segir í skaupinu „hvernig eigi að hætta að eiga glatað líf.“

Þar ráð­leggur Alda á­horf­endum að kyssa þá hluti sem þau girnast, sjálf hafi hún hlotið allar þær vörur og peninga sem varir hennar hafi snert. Hún mælir þar næst með að nota smá tungu ef fólk er virki­lega spennt fyrir að öðlast vörurnar sem fyrst.


Njálgur og frunsa skárri en fá­tækt



Ein­hverjir á­horf­endur virðast þó hafa á­hyggjur af smit­hættu og sýkla­vörnum en Alda gefur lítið fyrir það. „Hvort myndir þú frekar vilja vera fá­tækur eða eiga skítnóg af pening og þurfa þá kannski að vera með smá frunsu og njálg.“

Á­hrifa­valdurinn virðist þó ekki hafa tekið gríninu al­var­lega, þvert á móti þakkaði hún fyrir út­reiðina á sam­fé­lags­miðlum. „Takk fyrir mig Skaup og gleði­legt ár allir!“