„þá varð myrkur um miðjan dag og sandfallsvetur á íslandi“ - eldbruni orðið á reykjanesi frá fjöru til fjalla

Eldvirkni á Reykjanesi er lotubundin og þá telja vísindamenn hana geta staðið yfir í allt að 400 ár. Þetta er haft eftir Ármanni Höskuldssyni, eldfjallafræðingi og rannsóknarprófessor við HÍ á Viljanum.

„Eldvirkni er fyrst og fremst stjórnað af gliðnunar sprungum er liggja NA-SV þvert yfir skagann. Talið er að aðeins eitt kerfi geti verið virkt í einu. Síðasta hrina er gekk yfir Reykjanesskagann, hófst í austri fyrir rúmum 1000 árum, Brennisteins-Bláfjalla kerfið. Hraun frá þeim tíma má finna í Heiðmörk og á völlunum í Hafnarfirði,“ segir Ármann.

Á Eldgos.is kemur fram að Reykjanesskaginn sé yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn. Þar kemur fram að 3-4 eldstöðvarkerfi séu talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki. Landfræðileg lega þess er fyrir utan Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvarkerfum á skaganum.

\"\"

Á vefnum kemur fram að kerfin þrjú séu nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim öllum í sömu hrinunum. Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Trölladyngjukerfið sem er sem næst Krísuvík. 3: Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll. Einnig eru kenningar um að neðansjávarkerfi við Eldey nái upp á land rétt vestan við Reykjaneskerfið.

„Hvert eldstöðvar kerfið tók svo við af öðru, vestur eftir skaganum. Krísuvíkur kerfið var virkt á 12. öld og svo loks Reykjanes-Eldvörp-Svartsengi á 13. öld. Þegar kerfin fara í gang verða mörg eldgos á nokkrum árum til áratugum. Þannig er talið að frá landnámi, hafi orðið um 12-13 eldgos á Reykjanesskaga. Eldstöðvarkerfið Reykjanes-Eldvörp-Svartsengi er eina kerfið sem teygir sig út í sjó og því eina kerfið sem getur leitt til umtalsverðra gjóskugosa,“ segir Ármann.

Hann segir að eitt slíkt hafi átt sér stað árið 1226.

„Hinsvegar er algengasta myndun eldgosa á svæðinu hraungos um sprungur, og einkennist Reykjanesið af eldbruna frá fjöru til fjalla. Mun sjaldgæfari eldgos eru dyngjugos, en þrátt fyrir það er Reykjanesið að mestu byggt upp af þremur dyngjum, Sandfellshæð, Þráinsskildi og Hrútagjá.“

Hann segir að í sprungugosum geti krafturinn verið mikill í byrjun en fljótt dregur úr þeim. Því geta þannig gos breiðst hratt út í byrjun, en hægja á sér því lengra sem líður á eldgosið og hraunin renna lengra frá upptökum. Ætla megi að sprungugos á Reykjanesskaga vari frá nokkrum dögum til vikna.

Þá varð Sandfallsvetur

Á vefnum Eldgos.is segir:

„Gos urðu í kerfinu á 10. og 12. öld en síðan gengur yfir mikil goshrina á árunum 1211-1240.  Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi.  Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi.  Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um:

„Sandfallsvetur á Íslandi“. 

Í ritum Þorvaldar Thoroddsens segir meðal annars um gos á Reykjanesi:

Árið 1226:

Þá var uppi eldur í sjó fyrir Reykjaanesi. Þá varð myrkur um miðjan dag og sandfallsvetur á Íslandi.

\"\"

Þá segir einnig á vefnum Eldgos.is:

„Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum og mynda tvo meginhraunfláka, annan rétt við suðvesturhornið á Reykjanesi og hinn, miklu stærri, sem nær nánast yfir skagann frá suðri til norðurs. Þau hraun eru áberandi í grennd við Svartsengi og Bláa lónið.“

Annað kerfi á Reykjanesi sem þykir eitt hættulegasta eldstöðvarkerfi landsins er Trölladyngjukerfið. Ástæða þess að menn óttast það er nálægð þess við höfuðborgarsvæðið. Á Eldgos.is segir:

„Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.

Um árið 1150 – 1151 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu.  Hafa þessi eldgos verið nefnd Krísuvíkureldar.“

Hverjar eru svo framtíðarhorfurnar á Reykjanesi en eldstöðvarkerfin eru mörg eins og áður segir nærri byggð. Á Eldgos.is segir:

„Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár.   Nú eru nálægt 770 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum. 

Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð.  Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig etv. Grindavík. 

Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.“

Nánar er fjallað um eldgos á Íslandi á vefnum eldgos.is