Zúista-bræður „kickstörtuðu“ nýjum pizzustað í Garðabæ

18. janúar 2021
13:14
Fréttir & pistlar

Kickstarter-bræðurnir, Einar Ágústsson og Ágúst Arnar Ágústsson, opnuðu á dögunum pizzustaðinn Slæs með pompi og prakt. Staðurinn er í húsnæði við Iðnbúð 2 í Garðabæ. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Rekstrarfélag staðarins heitir Megn ehf. og er í 100 prósent eigu Einars en Ágúst Örn er skráður í varastjórn félagsins. Athygli vekur að hvergi á heimasíðu veitingastaðarins er rekstrarfélagsins getið en það er skráð fyrir vefsíðu Slæs.

Viðurnefnið „Kickstarter-bræðurnir“ er tilkomið vegna þess að bræðurnir hófu safnanir fyrir spennandi nýsköpunarverkefni á bandarísku hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter. Söfnuninni var þó skyndilega lokað eftir að sérstakur saksóknari hóf að rannsaka bræðurnar.

Þá var Einar fundinn sekur um að svíkja 74 milljónir af fjórum einstaklingum árið 2017. Taldi hann fjórmenningunum trú um að þeir væru að leggja féið í fjárfestingasjóð sem hann var sjálfur í forsvari fyrir. Í dómnum kom fram að hann ætti sér engar málsbætur.

Undanfarin ár hefur gustað um þá bræður vegna trúfélagsins Zúista. Einar og Ágúst stofnuðu trúfélagið en síðan tóku aðrir meðlimir yfir starfsemina þegar til stóð að leggja það niður. Markmið félagsins var að endurgreiða safnaðarmeðlimum sóknargjöldin sem hlaut mikinn hljómgrunn og flykktust Íslendingar til að skrá sig í trúfélagið. Í kjölfarið tóku Kickstarter-bræðurnir félagið aftur yfir með hjálp dómstóla og hafa síðan setið á sjóðum félagsins án þess að ljóst sé í hvað fjármunirnir hafa farið.