Vonandi vantar ekki vilja, skilning og kjark hjá ríkisstjórninni

15. mars 2020
16:24
Fréttir & pistlar

Margir hafa áhyggjur af því hve kraftlaus útspil ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hafa verið enn sem komið er vegna þess mikla vanda sem veiran, samkomubannið og ferðabann frá Bandaríkjunum valda. Of snemmt er að dæma ríkisstjórnina en menn óttast að ráðherrar skilji ekki hraða þeirra efnahagslegu hörmunga sem gætu dunið yfir verði ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ekki myndarlegar og skjótar. Tíminn er naumur og ríkisstjórnin hefur einungis komandi viku til að sýna afgerandi forystu sem gæti munað verulega um.

Á föstudaginn var afgreiddi Alþingi lög sem heimila fjármálaráðherra að fresta helmingi greiðslna opinberra gjalda nú um miðjan mánuðinn upp á 20 milljarða króna um einn mánuð. Þá má spyrja: Hvers vegna að hafa þessa ráðstöfun svona veika? Hvers vegna var miðað við helming en ekki allt? Hvers vegna er greiðslufresturinn einungis einn mánuður en ekki meira? Þetta ber vott um að menn skilji ekki stærð vandans enda er það svo að nær enginn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur kynnst atvinnurekstri að ráði og sumir aldrei gert annað en að þiggja lífsviðurværi sitt frá hinu opinbera, þar á meðal sjálfur forsætisráðherrann.

Talsmenn atvinnulífsins þurfa að koma ákveðið fram og lýsa þeirri mynd sem gæti blasað við ef ekki verður spynt við fótum af miklum krafti. Með samkomubanninu legst stór hluti athafnalífs landsmanna í mánaðardvala, ferðalög til og frá landinu svo og innanlands fara í fjögurra vikna dval og verslun og viðskipti muna að mestu einungis snúast um að fólk afli sér daglegra neysluvara. Það mun hefta tekjuflæði í þjóðfélaginu að verulegu leiti. Fæstir þola það nema í mjög stuttan tíma.

Núverandi ástand veldur vanda og niðursveiflu. Spurningin er einungis þessi: Verður niðursveiflan skammvinn, í nokkrar vikur, eða leiðir ástandið til langrar kreppu með ómældum skaða og sársauka.

Ráðstafanir af hálfu ríkisins munu ráða úrslitum um það. Komi ríkisstjórnin fram með myndarlegum hætti og af miklum krafti þá verður hægt að takmarka áfallið. En dragi hún lappirnar, eins og margir óttast, þá tekur hér við langvinn efnahagslægð.

Það sem þarf að ná samstöðu um á Alþingi næstu daga er að lækka skatta verulega. Fyrstu skref gætu verið að afnema tryggingagjald tímabundið í mars, apríl og maí og lækka það svo myndarlega eftir það. Öll atvinnufyrirtæki nytu strax góðs af því. Þá er mikilvægt að greiðslu viðrisaukaskatts sem á að skila í byrjun apríl verði frestað. Helst þannig að þessari tilteknu greiðslu verði deilt niður á tólf mánuði. Með því fengi atvinnulífið strax talsvert fé til ráðstöfunar að láni frá ríkissjóði. Jafnframt þyrfti að útfæra skattalækkanir með ýmsum hætti sem gilti til nokkurra ára. Auk þess þyrfti að hraða opinberum framkvæmdum sem unnt væri að hefja strax á vori komanda og sumarið 2020.

Ef ráðherrar óttast að þeir grafi undan fjárhag ríkisins með slíkum ákvörðunum, þá verða þeir að horfast í augu við það sem kann að gerast ef stjórnvöld bregðast nú ekki við af myndarskap og sýni kjark. Þá mun atvinnuleysi rjúka upp sem þýðir að til gríðarlegra greiðslna kæmi úr ríkissjóði vegna atvinnuleysisbóta. Einnig mun aðgerðarleysi auka líkur á fjöldagjaldþrotum í atvinnulífinu sem myndu bitna þungt á fjárhag ríkis og sveitarfélaga.

Nú reynir á hvort ríkisstjórn Íslands hafi kjark og dug til að veita þá forystu sem þarf. Henni verður þakkað hafi hún kraft og þor við ögrandi aðstæður. Annars verður hún dæmd hart - bæði til skemmri og lengri tíma.