Vonandi klúðrar Tryggvi Þór Herbertsson ekki núna

12. nóvember 2020
17:20
Fréttir & pistlar

Athygli vekur að stórar yfirlýsingar Tryggva Þórs Herbertssonar frá í gær um 40 milljarða hótel virðast ekki standa á traustum grunni. Alþingismaðurinn fyrrverandi sem starfar nú fyrir erlendan fjárfesti, Tan Sri Vincent Tan frá Malasíu, lýsti því yfir í blaðaviðtali í gær að Tan væri klár með 40 milljarða til að hefja byggingu lúxushótels á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn. „Hægt að hefjast handa nú þegar“, sagði Tryggvi Þór í viðtalinu. Framkvæmdir af þessu tagi eru að sjálfsögðu háðar margvíslegum leyfum yfirvalda skipulagsmála og í þessu tilviki einnig hafnaryfirvalda í Reykjavík þar sem um er að ræða lóð á hafnarbakkanum í borginni.

Strax í dag bregður svo við að Morgunblaðið birtir frétt um að Faxaflóahafnir, sem eiga Reykjavíkurhöfn, hafi ekki gert neina samninga við Tan eða útsendara hans. Formaður stjórnar Faxaflóahafna segir að áform Tans séu langt umfram skipulag og gildandi skipulagslýsingu. Orðrétt er þetta haft eftir formanninum í frétt Morgunblaðsins í dag:

„Að Geirsgötu 11 undanskilinni er Miðbakkinn í eigu hafnarinnar og Vincent Tan hefur ekki sótt um úthlutun á lóð til hafnarinnar. Hann hefur engin vilyrði fyrir því að hann geti byggt á Miðbakkanum. Það sem áformin snúast um er langt umfram skipulag, langt umfram gildandi skipulagslýsingu og það er enginn samningur til milli hans og hafnarinnar.“

Samkvæmt þessu eru yfirlýsingar Tryggva Þórs vægast sagt glannalegar og að mestu innstæðulausar. Ætla má að með þessu hafi hann ekki liðkað fyrir því að skipulagsyfirvöld og stjórn Faxaflóahafna gangi til samstarfs við Tan eða Tryggva Þór í umboði hans. Þetta er bagalegt því framkvæmd af þessu tagi með erlendu áhættufé ætti að geta verið kærkomin fyrir samfélagið á Íslandi í þeim mikla mótbyr sem ríkir nú og verður væntanlega viðvarandi enn um sinn.

Vonandi hefur Tryggvi Þór ekki klúðrað þessu mikilvæga máli með ótímabærum og stórkarlalegum yfirlýsingum sínum sem virka móðgandi gagnvart þeim yfirvöldum sem málið heyrir undir.

Því miður hefur margt misheppnast af því sem Tryggvi Þór Herbertsson hefur tekið sér fyrir hendur:

Hann var í forsvari um tíma fyrir Aska Capital og Milestone ehf. Árið 2007 var hann ráðinn sérlegur efnahagráðgjafi ríkisstjórnar Íslands en bankahrun dundi svo yfir haustið 2008. Hann sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2009 til 2013 en féll þá út af þingi. Í aðdragandi kosninganna 2013 ákvað hann að bjóða sig fram í efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norð-Austur kjördæmi en hann hafði setið í öðru sæti á lista flokksins í kjördæminu. Ætlunin var að fella Kristján Þór Júlíusson núverandi ráðherra. Tryggvi Þór var hvattur til þessa af ráðamönnum í flokkseigendafélagi Sjálfstæðisflokksins. Kristján Þór var hins vegar studdur dyggilega af heimamönnum undir forystu eigenda Samherja. Svo fór að Tryggvi Þór var rassskelltur í prófkjörinu og lenti í sjötta sæti. Það batt enda á pólitískan feril hans. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn komst í ríkisstjórn með Framsókn árið 2013 var sitthvað reynt til að koma Tryggva fyrir í kerfinu en það reyndist erfitt. Hermt er að Bjarni Benediktsson hafi viljað gera hann að formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands en að Framsókn hafi hafnað því. Þá var hann ráðinn sem verktaki inn í fjármálaráðuneytið til að stýra úthlutun styrkja til almennings vegna skuldalækkunar á vegum ríkisins. Það sætti mikilli gagnrýni vegna þess að hann þáði mun hærri tekjur fyrir störf sín en þeir yfirmenn í ráðuneytinu sem unnu að málum við hlið hans.

Þótt Tryggvi Þór Herbertsson sé vel menntaður og með margháttaða reynslu þá hefur hann verið frekar seinheppinn eins og rakið er hér að framan. Vonandi hefur hann ekki klúðrað áformum Tans um risahótelið með ótímabærum yfirlýsingum sínum. Við þurfum á svona fjárfestingum útlendinga að halda nú og á næstunni.