„Vona að þú leitir þér hjálpar“

Leikarinn Karl Ágúst Úlfs­son lenti í dag í því ó­skemmti­lega at­viki að bíl­rúðan í bíl hans var brotin. Hann á­varpar skemmdar­verka­manninn á Face­book þar sem hann óskar honum enskis ills, heldur segist þvert á móti óska honum alls hins besta.

„Á­gæti skemmdar­verka­maður. (Ég ætlaði upp­haf­lega að kalla þig skemmdar­varg, en hætti við vegna þess að ég vildi ekki særa þig.) Ég veit ekki alveg hvers vegna þú á­kvaðst að brjóta rúðuna í bílnum mínum, svo ég get einungis reynt að gera mér það í hugar­lund,“ skrifar leikarinn.

„Það veit hei­lög hamingjan að ekkert í honum innan­borðs var þess virði að stela því, enda sé ég ekki að neitt hafi horfið úr honum. Svo lík­lega þurftirðu ein­fald­lega að fá út­rás fyrir til­finningar, sem þú einn ert til frá­sagnar um. Ég vona að þar með sértu laus við þær og getir snúið þér að upp­byggi­legri at­höfnum,“ segir Karl.

„Mér þykir í öllu falli mun betra að þú brjótir hjá mér rúðu en að þú skaðir sjálfan þig, sem hefði hæg­lega getað orðið niður­staðan. Það hefði ég ekki viljað hafa á sam­viskunni. Svo vona ég að þú leitir þér hjálpar, en í öllu falli að þú hafir það sem allra best.“

Ágæti skemmdarverkamaður. (Ég ætlaði upphaflega að kalla þig skemmdarvarg, en hætti við vegna þess að ég vildi ekki særa...

Posted by Karl Ágúst Úlfsson on Thursday, 24 September 2020