Linda Blöndal skrifar

Völdu pólitíska reynslu

12. október 2017
16:40
Fréttir & pistlar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er nýr formaður Viðreisnar. Ákveðið var meðal flokksráðs og þingflokks seint í gær, miðvikudag, að hún skyldi taka við af Benedikt Jóhannessyni. „Þetta var alfarið hans ákvörðun“, segir Þorgerður Katrín á Þjóðbraut hjá Lindu Blöndal í kvöld og enn fremur að fleiri hafi komið til greina sem formenn. Málið hafi verið rætt en ekki kosið sérstaklega um það.

Reynsla sín í stjórnmálum komi sér vel í stöðunni núna. Flokkurinn mælist langt undir því fylgi sem þarf að ná inn á þing.

Hún segir að ákvörðun Benedikts sýni að flokkurinn sé sveigjanlegur og geti tekið breytingum. Hún vill þó ekki segja að Benedikt hafi verið beittur þrýstingi. Viðreisn þurfi að koma málefnum sínum betur á framfæri og hún muni nýta reynslu sína í það af krafti fram að kosningum.