Vítalía og Edda Falak hjóla í Jakob Bjarnar: „Djöfulsins forréttindablinda og aumingjaskapur“

Hlaðvarpsstjórnandinn Edda Falak er ekki par sátt við þá Helga Áss Grétarsson, lögfræðing, og Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamann, fyrir áhyggjur þeirra af svokölluðum dómstól götunnar í máli Vítalíu Lazarevu sem hefur sakað fimm valdamikla menn um vægast sagt vafasama hegðun gagnvart sér. Þá er Vítalía sjálf ekki par sátt við ummæli Jakobs.

Helgi Áss sagði í grein á Vísi að fimmmenningarnir væru saklausir uns sekt væri sönnuð. „ Eigi að síður kann þorri almennings að meta þá seka. Gefum okkur að það sé sannleikanum samkvæmt. Skiptir þá sá sannleikur meira máli en að komist sé að slíkri niðurstöðu á grundvelli takmarkaðra sönnunargagna og að útdeiling „refsikenndra viðurlaga“ sé hvorki í höndum dómstóla né annarra stofnana refsivörslukerfisins?,“ sagði Helgi í grein sinni.

„Með öðrum orðum, eiga einhliða frásagnir í samfélagsmiðlum, studdar eftir atvikum gögnum sem aflað hefur verið einhliða, að duga til að sá sem borinn er sökum sé sviptur mannorði og atvinnutækifærum?“

Jakob Bjarnar, sem hefur tekið fram að hann trúi frásögn Vítalíu, sagði það sé ekki hægt að horfa fram hjá því að dómstóll götunnar sé að verki. Í slíku andrými þrífist illmennin best.

Edda sendir þeir pillu á Twitter:

„Jakob Bjarnar og Helgi Áss, what a concept. Djöfulsins forréttindablinda og aumingjaskapur að lýsa frekari áhyggjum af einhverjum "dómstól götunnar" en þeirri staðreynd að hún var seld og misnotuð,“ segir hún.

„Jájá ég trúi henni en við skulum samt láta dómskerfið sjá um þetta og ekki vera að ræða þetta svona opinberlega, sussussssuss" haltu kjafti.“

Vítalía var ekki sátt við ummæli Jakobs um að fjölmiðlar nái ekki í sig. „„Hún Vítalía lætur ekki ná í sig af fjölmiðlum, hún vill bara ræða við Eddu Falak, vinkonu sína,“ vitnar hún í Jakob úr Bítínu á Bylgjunni í morgun. Hún segir svo: „Þegar mér vantaði hjálparhönd vildi nánast enginn taka það að sér en núna vilja allt í einu allir hjálpa, þegar eitthver annar gerði alla vinnuna ? Double standarts hvað.“

Jakob svaraði á Twitter: „Ég er alveg með þér í því að við eigum að negla dela og nauðgara. En við verðum að ná almennilegu taki á þeim. Ég er hræddur um að ef allir teljast sekir, eða sakarefnin eru óljós þá sleppi ógeðin.“