Vítalía og Arnar Grant kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar

Vítalía Lazareva og Arnar Grant hafa verð kærð til héraðs­sak­sóknara fyrir til­raun til fjár­kúgunar, hótanir og brot gegn frið­helgi einka­lífs. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag en kærendur eru Ari Edwald, Hregg­viður Jóns­son og Þórður Már Jóhannes­son.

Eins og kunnugt er á málið rætur að rekja til sam­kvæmis í sumar­bú­stað í Skorra­dal í októ­ber 2020. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að ekki hafi verið gert ráð fyrir Vítalíu í ferðinni, heldur voru þeir þar að skemmta sér Ari, Arnar, Hregg­viður, Þórður Már og Þor­steinn M. Jónsson.

Úr varð að hún kæmi í bú­staðinn eftir vinnu og fer tvennum sögum um hvernig á því stóð. Var hún komin til þeirra um mið­nættið og var ölvun þá orðin tölu­verð í bú­staðnum. Yfir­gaf Þor­steinn sam­kvæmið stuttu síðar.

Eftir umrætt kvöld munu engin sam­skipti hafa átt sér stað milli Ara, Hreggviðar og Þórðar annars vegar og Vítalíu hins vegar fyrr en ári síðar. Þann 28. októ­ber að þeir fengu skila­boð frá henni þess efnis að hún hyggðist leita réttar síns vegna at­vika sem í bú­staðnum hefðu orðið.

Fyrir há­degi næsta dag, 29. októ­ber 2021 leituðu þeir Ari, Hregg­viður og Þórður skýringa á skila­boðunum hjá Arnari Grant, sem gat engar skýringar gefið.

Síð­degis þennan sama dag birti Vítalía frá­sögn á Instagram þess efnis að brotið hafi verið á henni kyn­ferðis­lega í heitum potti í sumar­bú­stað ári áður og birtir hún nöfn Ara, Hregg­viðs, Þórðar Más og Arnars Grant. Færslan er tekin niður síðar sama dag.

Arnar sem hafði verið í hópi þeirra sem sakaður var um brot í fyrr­nefndri færslu Vítalíu, mun dagana á eftir hafa af­greitt færsluna sem bull, en er svo sagður hafa snúið af þeirri braut nokkru síðar og farið að styðja frá­sögn Vítalíu og breiða hana út.

Í kæru á hendur þeim Vítalíu og Arnari sem lög­menn Ara, Hregg­viðar og Þórðar af­hentu á skrif­stofu Héraðs­sak­sóknara síðast­liðinn föstu­dag er byggt á því að þau Vítalía og Arnar Grant hafi staðið sam­eigin­lega að at­burða­rás sem hófst seinni­partinn í nóvember sama ár.

Lestu alla umfjöllunina á vef Fréttablaðsins.