Vissu ekki af upptöku og voru oft fáklæddar fyrir framan myndavélar

Kveikt var á eftirlitsmyndavélum í stofum þar sem keppendur á ReyCup gista í Laugardalshöll. Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun.

Móðir fimmtán ára stúlku sem keppir á mótinu segir í viðtali við blaðið að dóttur sín hafi ekki vitað af myndavélunum og þær hafi oft verið fáklæddar eða naktar þegar þær skiptu um föt í stofunum.

Samkvæmt upplýsingum frá móður stúlkunnar fór þeim að gruna að kveikt væri á myndavél í stofunni, dóttir hennar og tveir aðrir keppendur hafi farið inn á svæði sem aðeins sé ætlað starfsmönnum og séð stofuna sína á tölvuskjá.

Myndin er tekin af stúlkum sem fóru að rannsaka málið. Á skjánum stendur að slökkva eigi á þeim á kvöldin.
Aðsend mynd.

Hvorki framkvæmdarstjóri mótsins né þjálfarar hafa viljað svara fjölmiðlum að svo stöddu en fundað var með fulltrúum þess liðs sem svaf í umræddum svefnplássum, eftir síðasta leik mótsins.

ReyCup er stærsta knattspyrnumót landsins fyrir unglinga á aldrinum 13 – 16 ára, bæði drengir og stúlkur keppa á mótinu. Keppnendur gista í sjö skólum í Reykjavík auk Laugardalshallar, aðeins stúlkur gista í Laugardalshöll. Mótið hófst síðastliðinn miðvikudag og því lauk fyrr í dag.

„Við notum ekki þessar myndavélar í annað en að ná yfirsýn á hvar húsið er og hvernig það liggur. Hvort það sé fólk í einhverjum rýmum eða ekki. Starfsmenn sitja ekki og horfa á þessar myndavélar allan daginn og það hefur enginn aðgengi að þessum myndavélum, nema starfsmenn í deskinu og svo bara ég,“ sagði Birgir Bárðarson í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag.

Hann varpar ábyrgðinni á mótshaldara og segir að ekki hafi verið óskað eftir því að vélarnar yrðu teknar úr sambandi.

„Ja, það var ekki talað um það sérstaklega að það þyrfti að slökkva á þeim. Ef slökkva hefði átt á þeim þá hefði þurft að hafa samband við mig og það var ekki gert. Ég tel að það hafi verið handvöm hjá einhverjum sem átti að sinna því hlutverki að óska eftir að taka þær úr sambandi.“

Samkvæmt heimildum hefur málið verið tilkynnt lögreglu.Þá greinir Fréttablaðið frá því að Persónuvernd fylgist með framvindunni og muni funda um málið í fyrramálið.