Virti ekki sóttkví og kom af stað hópsmiti á leikskóla

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn al­manna­varna­sviðs ríkis­lög­reglu­stjóra, segir hóp­sýkingu á leik­skólanum Jörfa boða fleiri smit næstu daga. Í dag greindust þrettán manns með Co­vid-19 innan­lands þar af voru að­eins fimm í sótt­kví.

Þau smituðu sem voru í sóttkví hafi þó verið þar svo stutt að allir sem þau hafa um­gengist síðustu daga eru út­settir fyrir smiti.

„Það eru nánast allir þessir þrettán utan sótt­kvíar má segja,“ út­skýrði Víðir í samtali við Fréttablaðið. „Sá sem var styðst í sótt­kví var bara búin að vera í klukku­tíma.“

Breska afbrigðið á ferðinni

Tíu smitanna tengjast leikskólanum Jörfa þar sem breska afbrigði veirunnar greindist meðal starfsmanna. Smitið er talið hafa komið til landsins um mánaðarmótin með einstaklingi sem ekki virti sóttkví eftir landamæraskimun.

„Það er aðili sem við eft­ir­lit virt­ist ekki hafa virt sótt­kví og lög­regla hafði af­skipti af hon­um. Við erum svo með raðgrein­ingu, sem teng­ir þetta sam­an,“ sagði Víðir í samtali við mbl.is.

Hærri tölur væntanlegar

Víðir sagði hópsýkinguna kristallast í kringum leik­skólann Jörfa þar sem 130 manns, þar af 33 starfs­menn og hundrað börn, eru öll komin í sóttkví og verða skimuð í dag.

„Við erum ekki komin með niður­stöður frá öllum starfs­mönnum leik­skólans,“ segir Víðir. Það sé því veru­lega lík­legt að fjöldi smita muni hækka næstu daga. „Miðað við þann fjölda barna og full­orðna sem fer í skimun í dag þá kæmi mér veru­lega á ó­vart ef við fengjum ekki dá­lítið af tölum í dag.“