Vinstri stjórnin féll á prófinu og flýtur sofandi að feigðarósi

Nú eru röskar sjö vikur síðan gengið var til þingkosninga hér á landi og enn bólar ekkert á nýrri ríkisstjórn, hvað þá að þing hafi komið saman. Formenn ríkisstjórnarflokkanna hittast nær daglega í kaffi og segja stjórnarmyndun ganga ágætlega, aðeins þurfi að ganga frá nokkrum lausum endum. Ekkert bendir til þess að þeir segi okkur sannleikann í þeim efnum. Í síðustu viku boðaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stuttan stjórnarsáttmála. Á mannamáli þýðir þetta að formennirnir hafa ekki náð saman um ríkisstjórnarstefnu heldur einungis að sitja áfram í ríkisstjórn. Rétt eins og fyrir fjórum árum láta flokkarnir málefnin víkja fyrir valdastólunum. Fyrir fjórum árum stefndi í stjórnarkreppu ef ekki yrði af myndun núverandi ríkisstjórnar en svo er ekki nú. Margir raunhæfir stjórnarmyndunarkostir eru á borðinu.

Núverandi ríkisstjórn hefur verið kennd við kyrrstöðu og ekki að ósekju. Á meðan Sjálfstæðiflokkur og Framsókn sitja í vinstri stjórn undir forystu formanns vinstri grænna er flest í biðstöðu hér á landi, hvort sem um ræðir umhverfismál, skattamál, stefnumótun í atvinnumálum, peningamál, nýsköpun, þátttöku í samstarfi þjóða í okkar heimshluta eða heilbrigðismál.

Hvergi er kyrrstaðan jafn grátlega áþreifanleg og í heilbriðismálum sem hafa verið látin sitja á hakanum um árabil, fáar eða engar tilraunir hafa verið gerðar til framtíðarstefnumörkunar, Landspítalinn ræður ekki við hlutverk sitt þegar á reynir vegna þeirrar úreltu stefnu að öll heilbrigðisþjónusta skuli helst veitt af ríkisstarfsmönnum á sama tíma og rúmum á spítalanum hefur fækkað um nálega þriðjung á meðan þjóðinni hefur fjölgað um 20 prósent og fjöldi ferðamanna margfaldast.

Liðin eru nær tvö ár frá því að fyrstu Íslendingarnir veiktust af Covid og ríkisstjórnin hefur ekki lyft litla fingri til að bæta stöðu spítalans, en takmörkuð geta Landspítalans til að mæta auknu álagi er helsta ástæða þess að langtímum saman höfum við Íslendingar mátt búa við meiri takmarkanir og frelsisskerðingu af völdum Covid en flestar nágrannaþjóðir okkar. Meira fjármagni hefur verið veitt til Landspítalans en engin tilraun gerð til að ráðast að rót vandans.

Vegna Covid hafa heilbrigðismálin orðið stærsta mál þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur brugðist hrapallega í þeim málaflokki. Á tæpum tveimur árum hefur geta Landspítalans til að takast á við Covid ekkert breyst. Spítalinn er á nákvæmlega sama stað og í mars 2020. Sú tilhugsun er hrollvekjandi að sömu flokkar og sama fólk og ber ábyrgð á því ástandi skuli í hægindum sínum ætla að starfa áfram saman á sömu forsendum og láta eins og allt sé í himnalagi. Ekki síst þegar gæfulegri stjórnarmyndunarkostir eru í boði.

- Ólafur Arnarson