Vinstri stjórn Katrínar endurreist. Sjálfstæðisflokkurinn með nýja ráðherra

Þó að formenn stjórnarflokkanna láti í veðri vaka að búið sé að semja um framhald vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur, formanns sósíalista, heyrast enn efasemdarraddir innan úr flokkunum sem segja að ósamið sé um erfiðustu málin og vandséð hvernig takast megi að lenda þeim.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru margir fokillir yfir því að flokkurinn ætli aftur að hefja formann sósíalista til æðstu metorða – þegar þess gerist ekki þörf.

Hjá Framsókn eru margir daprir í bragði yfir því að hinir flokkarnir reyni að gera sem minnst úr stórsigri flokksins. Spurt er hvort menn hafi gleymt hvaða flokkur bætti við sig 5 þingsætum meðan hinir stjórnarflokkarnir töpuðu fylgi milli kosninga, og VG tapaði 3 þingsætum og er nú langminnsti flokkurinn af þessum þremur.

Engu að síður lítur út fyrir að skipting valda og skipan ráðherrastóla sé mjög að skýrast, náist á annað borð saman um myndun þessarar vinstri stjórnar:

Frá VG: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. Svandís Svavarsdóttir yrði væntanlega forseti Alþingis. Þessi þrjú eru öll af höfuðborgarsvæðinu sem veldur ólgu. Bjargey Ólsen Gunnarsdóttir af Norðurlandi gæti því komið til greina sem þingforseti í stað Svandísar.

Frá Sjálfstæðisflokki: Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir dóms-og kirkjumálaráðherra, Guðlaugur Þórðarson heilbrigðisráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir iðnaðar-og ferðamálaráðherra og Jón Gunnarsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Hér er um sama ráðherrafjölda að ræða og í fráfarandi vinstri stjórn enda bætti flokkurinn engu við sig í kosningunum, tapaði reyndar einu prósentustigi milli kosninga.

Samkvæmt þessu flaggar flokkurinn 2 nýjum ráðherrum. Guðrún Hafsteinsdóttir er sjálfsögð og sjálfstæðismenn í kjördæmi hennar krefjast ráðherrastóls fyrir leiðtoga sinn eftir að hafa verið án ráðherra tvö kjörtímabil. Þá væri galið hjá flokknum að gera hana ekki að iðnaðarráðherra en Guðrún hefur starfað í iðnaði í aldarfjórðung og verið formaður Samtaka iðnaðarins í 6 ár. Jón Gunnarsson yrði öflugur ráðherra sjávarútvegs-og landbúnaðarmála enda gamall bóndi úr Miðfirði og með reynslu af hvalveiðum. Stuðningsmenn Áslaugar Örnu munu trúlega taka því illa að henni sé vikið úr ríkisstjórn. Hún er umdeild og umtöluð og óvíst að flokkurinn geti haldið henni við völd sem dóms-og kirkjumálaráðherra. Athygli vakti að flokkurinn tefldi henni nær ekkert fram í aðdraganda kosninganna nú í september. Einhver skýring hlýtur að vera á því.

Frá Framsóknarflokki: Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags-og barnamálaráðherra, Willum Þórsson innviðaráðherra og Ingibjörg Ísaksen menntamálaráðherra.

Framsóknarmenn krefjast þess að fá 5 ráðherraembætti sem viðurkenningu á kosningasigri sínum vegna þess að hinir flokkarnir vilja hvorki sleppa forsætis-né fjármálaráðuneytum og þá þarf annað afgerandi að koma til sem væri þá í formi fleiri ráðuneyta.

Vert er hins vegar að hafa í huga að ekki hefur enn tekist að jafna ágreining milli VG og hinna flokkanna varðandi raforkuframleiðslu, hálendisþjóðgarð, breytingar á stjórnarskrá, aðstoð við þá verst stöddu, skattamál og ríkisfjármál –svo eitthvað sé nefnt.

Samstaðan er mest um völd og ráðherrastóla. Raunveruleg pólitík er á hröðu undanhaldi.

- Ólafur Arnarson