Vinstri grænir koma laskaðir til kosninga

Undanfarna daga hafa mjög áhugaverðar greinar eftir Ole Anton Bieltvedt birst í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Í greinunum fer hann yfir árangur, eða öllu heldur árangursleysi Vinstri grænna í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk.

Ole Anton er hvass og færir rök fyrir því að stjórnarþátttaka Vinstri grænna sé sneypuför hin mesta, þeir hafi engu náð fram af sínum stefnumálum og svikið kjósendur sína í stóru sem smáu. Ljóst sé að Vinstri grænir hafi haft ríkan vilja til að standa við fögur fyrirheit en ekki haft erindi sem erfiði og þurfi það ekki að koma neinum á óvart.

Ole Anton rifjar upp ályktun landsfundar Vinstri grænna árið 2015 þar sem lagst er gegn hvalveiðum. Við þær sé „beitt ómannúðlegum veiðiaðferðum til að viðhalda áhugamáli örfárra útgerðarmanna“. Háum fjárhæðum af opinberu fé hafi verið veitt til að styrkja þessa áhugamenn um hvalveiðar og nú sé mál að linni. Hann telur þessa einörðu afstöðu gegn miskunnarlausu drápi háþróaðra spendýra hafa aflað flokknum stuðnings náttúru- og dýraverndarsinna í kosningunum 2017.

Andstöðunni við hvalveiðar þurftu Vinstri grænir svo að fórna í stjórnarmyndunarviðræðum strax eftir kosningar. Í staðinn fengu þeir vilyrði í stjórnarsáttmálanum um hálendisþjóðgarð og endurskoðun á löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Einnig mátti lesa í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin vildi halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ekkert af þessu gekk eftir og athygli vakti hvernig sjálfstæðis- og framsóknarmenn skildu samstarfsflokkinn eftir á berangri í öllum helstu málum. Sviku kinnroðalaust það sem stóð svart á hvítu í stjórnarsáttmálanum.

Í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem jafnvægi ríkir milli flokka mætti ætla að allir flokkar þyrftu að fórna einhverjum stefnumálum til að ná öðrum fram. Ole Anton Bieltvedt færir rök fyrir því að Vinstri grænir hafi í raun þurft að fórna öllum sínum baráttumálum í ríkisstjórnarsamstarfinu og ekkert fengið í staðinn þegar upp var staðið og furðar sig á því að formaður flokksins og forsætisráðherra skuli lýsa ánægju með samstarfið og vilja til að halda því áfram eftir kosningar.

Ole Anton víkur að loftslagsmálum, sem eru eitt stærsta mál samtímans, og rifjar upp að í september 2018 mættu hvorki fleiri né færri en sjö ráðherrar á blaðamannafund þar sem tilkynnt var með pompi og prakt að setja skyldi 6,8 milljarða í aðgerðir í loftslagsmálum næstu fimm árin, eða 1,4 milljarða á ári. Gott og vel, en á svipuðum tíma var gert opinbert að verja ætti 120 milljörðum í flugstöðina í Keflavík á næstu árum, eða 18-falt meira en setja á í loftslagsmálin.

Niðurlag greinar Ole Antons Bieltvedt í Morgunblaðinu í gær er:

„Í raun og veru var og er það með ólíkindum að Katrín Jakobsdóttir skyldi láta sér detta í huga að hún fengi einhverjum stefnumálum Vinstri grænna framgengt í samstarfi við Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga, eins og ofannefnd dæmi sýna og sanna, og það að hún sé nú tilbúin til að endurtaka þetta samstarf, með væntingar um betri árangur, ber vott um mikinn og um leið uggvænlegan dómgreindarskort.“

- - Ólafur Arnarson