Vinkona Eddu Falak svívirt: „Finnst ykkur það fyndið?“

Edda Falak, fjármálafræðingur, Crossfit-þjálfari og hlaðvarpsþáttastjórnandi, ræddi við leikkonuna Donnu Cruz í þættinum Eigin konur á dögunum. Í þættinum var meðal annars rætt um fordóma, rasisma og kvenfyrirlitningu.

Fréttavefur DV fjallaði meðal annars um viðtalið í gærmorgun en í því var einnig komið inn á umdeilt grín Péturs Jóhanns Sigfússonar í myndbandi sem Björn Bragi Arnarson deildi á Instagram í fyrra. Þar lék Pétur asíska konu í kynlífsathöfnum og hlaut hann mikla gagnrýni í kjölfarið.

Edda sagði frá tveimur vinkonum sínum á Twitter í gær sem hafa mátt þola fordóma á eigin skinni.

„Ég á vinkonu frá asíu, henni finnst óþægilegt að labba í bænum með Íslenska pabba sínum því fólk heldur að hann hafi “keypt” hana. Önnur vinkona mín frá asíu er svo harkalega svívirt kynferðislega því asískar konur teljast svo undirgefnar og villtar,“ segir Edda sem spyr síðan: „Finnst ykkur það fyndið?“

Edda birtir svo miður skemmtileg komment sem birtast undir frétt DV. Í einni slíkri segir til dæmis: „Ekki láta þessa vælukjóa koma í veg fyrir að staðreyndir fái að heyrast. Það er einfaldlega staðreynd að asískar konur eru geggjaðar í rúminu. Alveg eins og það er staðreynd að svartir eru geggjaðir í körfubolta.“

Fjölmargir taka undir færslu Eddu og lýsa vonbrigðum sínum við athugasemdirnar, sem oftar en ekki eru frá hvítum körlum. Í einni athugasemd segir til dæmis: „Fólk sem verður ekki fyrir rasisma á eigin skinni virðist eiga ótrúlega bágt með að setja sig í þessi spor. Ég skil ekki hvernig fólki finnst svona erfitt að endurhugsa, þroskast og gera betur. Sérstaklega þegar fólk í minnihlutahópum biður um það? Ég meina hvað þarftu annað?“

Í viðtalinu viðurkenndi Donna að þegar hún var yngri hefði hún eflaust hlegið að gríni Péturs, en ekki lengur. „Ég hefði örugglega hlegið [að þessu] og fundist það ógeðslega fyndið. En þetta er samt ekki fyndið því þetta ýtir undir staðalímynd sem er að meiða fólk. Ég er ekki svona í dag. Ég hika ekki við að [segja eitthvað við fólk] ef mér finnst það fara yfir línuna,“ sagði hún meðal annars.