Vindhögg Ásdísar bæjarstjóra Kópavogs

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, ætlaði heldur betur að slá sig til riddara með því að ráðast á svonefndan Samgöngusáttmála sem ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu árið 2019. Í gær birtist eftir hana grein í Morgunblaðinu þar sem hún hélt því fram að þessi stóri sáttmáli væri allur farinn úr böndunum og kominn 50 milljarða fram úr áætlun, þó svo verkefnið væri varla byrjað. Stór orð og miklar fullyrðingar hjá hinum nýbyrjaða bæjarstjóra í Kópavogi, sem tók við embætti um mitt síðasta ár. Morgunblaðinu þótti yfirlýsing hennar svo merkileg að blaðið taldi ástæðu til að birta tilvísun í grein hennar á forsíðu.

Ekki liðu margir klukkutímar þar til stóryrði Ásdísar voru rekin öfug ofan í hana og Morgunblaðið. Í hádegisfréttum RÚV í gær var rætt við framkvæmdastjóra Betri byggðar, sem stýrir Samgöngusáttmálanum, og hann upplýsti að Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri hefði heldur betur hlaupið á sig.

Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og framkvæmdastjóri Betri byggðar, skýrði þá frá því að engar óeðlilegar hækkanir hefðu orðið á þessu risastóra verkefni en bæjarstjóranum hafi orðið á að „gleyma“ að reikna verðbreytingar á samninginn upp á 33 milljarða króna. Fyrir liggur að gerðar hafa verið breytingar á þessum samningi vegna umferðarstokks við Sæbraut sem bætist við og á að kosta 17 milljarða króna. Ásdís bæjarstjóri veit vel af þeirri breytingu. En henni láðist að reikna verðlagsbreytingar á þetta risastóra verkefni frá árinu 2019 og þar skeikaði heilum 33 milljörðum króna! Er þó verðbólgan í boði hennar eigin Sjálfstæðisflokks, sem fer með og hefur farið með stjórn ríkisfjármála í áratug.

Framkvæmdastjóri Betri byggðar var þungorður í þessu viðtali við RÚV og sagði eitthvað á þá leið að fólk gæti ekki leyft sér að slá fram ósambærilegum fjárhæðum með þessum hætti. Óhætt er að taka undir það.

Gera verður þær kröfur til bæjarstjóra Kópavogs að hún stígi ekki svona fram á ritvöllinn með blekkingar af þessu tagi. Hér skal ekki dæmt um það hvort um vísvitandi rangfærslur var að ræða eða dæmalausa glópsku. Gildir það enda einu og hvorugt er boðlegt. Ásdís Kristjánsdóttir hlýtur að geta gert betur, eða svo skyldi ætla.

- Ólafur Arnarson.