Vill stofna stjórnmálaflokk eldri borgara: Gæti fengið tíu þingmenn

Eldri borgarinn Hafsteinn Sigurbjörnsson vill að Landssamband eldri borgara (LEB) beiti sér fyrir stofnun stjórnmálaflokks til verndar gömlu fólki.

„Stjórnmálaflokkur skipaður eldra fólki úr LEB til setu á Alþingi er eina raunhæfa leiðin til að lagfæra og vernda lífskjör eldri borgara,“ skrifar Hafsteinn í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Þar vísar hann til þess að eldri borgarar séu nú orðnir alls 45 þúsund hér á landi og að stór hluti þeirra búi við bágbornar aðstæður og lifi við sára fátækt.

„Eldri borgarar hafa engin vopn til að verja kjör sín. Þeir eru beiningamenn og algerlega háðir valdhöfum þjóðarinnar: ríkisstjórn, stéttarfélögum og öðrum valdastofnunum þjóðfélagsins.“

Gæti fengið tíu þingmenn

Telur Hafsteinn að flokkur í forsvari fyrir 45 þúsund eldri borgara myndi auðveldlega fá fimm til átta þingmenn kjörna inn á Alþingi og jafnvel allt að tíu ef allir eldri borgarar kysu sinn flokk á þing með 100% kjörsókn.

Þá segist hann sannfærður um að fleiri en eldri borgarar myndu kjósa flokk þeirra, til að mynda börn þeirra, ættingjar og vinir.

Kosningastefna flokksins ætti að vera í anda þess sem stjórnlagaráð lagði fram árið 2011.

Hafsteinn segir margvísleg rök vera fyrir framboði eldri borgara til Alþingis. Til að mynda hafi lítið áunnist í að leiðrétta kjör eldri borgara og að gífurleg reynsla sé meðal eldri borgara sem geti nýst á þessu sviði.