Vill Bjarni þetta?

Grein Rósu Kristinsdóttur lögfræðings til stuðnings Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem birtist á Vísi í gær, hefur valdið titringi meðal sjálfstæðismanna. Í greininni brýnir Rósa ungt fólk til þátttöku í prófkjörinu og bendir á að með „einum smelli“ geti fólk gengið í flokkinn til að kjósa í prófkjörinu og á sama hátt sagt sig úr flokknum strax að loknu prófkjöri – aftur með „einum smelli“.

Rósa telur þátttöku eldra fólks í prófkjörum mun meiri en þeirra sem yngri eru, þannig að í raun sé eldra fólkið að velja fulltrúa fyrir hina yngri, og færir rök fyrir því að prófkjör séu í raun ekkert annað en persónukjör innan flokka og að þeir sem „vilja komast sem næst persónukjöri gætu með réttu skráð sig í alla flokka sem velja frambjóðendur með lýðræðislegum hætti, og tekið þátt í prófkjörunum í sínu kjördæmi.“

Nú er ekki í frásögur færandi þótt einstaklingur úti í bæ skrifi grein til stuðnings frambjóðanda í prófkjöri hjá stjórnmálaflokki en vissulega vekur athygli að hvatt skuli til þess opinberlega að fólk skrái sig í stjórnmálaflokk í þeim tilgangi einum að kjósa tiltekinn frambjóðanda í prófkjör og á það bent að að því búnu sé hægt að segja sig rakleiðis úr flokknum á nýjan leik.

Mestum titringi hefur þó valdið sú staðreynd að eiginmaður Rósu er Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Almennt er talið að aðstoðarmenn ráðherra tjái sig ekki nema í umboði þeirra, eða hið minnsta með blessun þeirra. Nú gildir hið sama vitanlega ekki um maka aðstoðarmanna – þeir eru ekki talsmenn ráðherra en vissulega vekur það spurningar þegar maki aðstoðarmanns ráðherra og flokksformanns tjáir sig með þessum hætti um prófkjör í flokknum og hvetur fólk til að kjósa í sem flestum prófkjörum, jafnvel hjá flokkum sem það styður alls ekki.

Grein Rósu fer mjög fyrir brjóstið á Einari S. Hálfdánarsyni endurskoðanda, sem er faðir Diljár Mistar Einarsdóttur aðstoðarmanns utanríkisráðherra sem sækist eftir þriðja sæti í prófkjörinu – sæti sem gefur annað sæti á framboðslista í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Einar sendi nokkrum lykilmönnum í þingliði sjálfstæðismanna og Bjarna Benediktssyni formanni flokksins tölvupóst í gær þar sem hann skrifa m.a. eftirfarandi:

„Hún hvetur fólk berum orðum til að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn, kjósa dómsmálaráðherra og skrá sig svo aftur úr flokknum. Og endurtaka svo leikinn í öðrum flokkum. Með þessu telur hún lýðræðinu best borgið.Eftir þessa sendingu er nauðsynlegt að forysta flokksins tali hátt og skýrt. Sjálfstæðismenn eiga auðvitað sjálfir að velja á sinn lista. – Hvers vegna hvetur hún ekki garðbæinga til að skipta um lögheimili? Því er líka hægt að breyta „með einum smelli“ eins og hún orðar það (nema það sé líka partur af planinu).“

Einar vísar í að vinnubrögð af þessu tagi hafi leikið Samband ungra Sjálfstæðismanna grátt og segir:

„Því miður er var starf SUS drepið í dróma á sínum tíma með vélabrögðum af því tagi sem Rósa aðhyllist. Ekkert liggur annað liggur fyrir en að ungir sjálfstæðismenn taki hlutfallslega jafnan þátt í prófkjörum og aðrir. Við Rósu vil ég segja; svona störfum við ekki í Sjálfstæðisflokknum og höfum ekki gert – ekki lengst af.

Ég hvet ykkur sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að fordæma þessi greinarskrif. Vonandi hreinsar dómsmálaráðherra svo til eigin ranni án nokkurrar hvatningar.“

Meðal viðtakenda póstsins frá Einari eru Sigríður Á. Andersen, Guðlaugur Þór Þórðarson, Brynjar Níelsson og Bjarni Benediktsson.

Spurningin sem brennur á mörgum sjálfstæðismönnum núna er hvort þessi hernaðarlist í prófkjöri sé stunduð með blessun Bjarna Benediktssonar og hvort vinnubrögð af þessu tagi þættu ásættanleg í kjördæmi formannsins?

- Ólafur Arnarson