Vill að eldri borgarar geti farið í sund: „Tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að leita allra skynsamlegra leiða til að takmarka neikvæð áhrif sóttvarnaraðgerða á hversdagslegt líf fólks en hún beinir meðal annars sjónum sínum að eldri borgurum í færslu sinni á Facebook.

„Nú þegar stór hluti eldri borgara hefur verið bólusettur við COVID-19 þætti mér eðlilegt að Reykjavíkurborg leitaði heimilda til að opna minnst eina sundlaug (helst fleiri) sem aðgengileg yrði bólusettum,“ segir Hildur en hún segir marga eldri borgara reiða sig á sundlaugar fyrir hreyfingu, virkni og félagsskap.

Hún leggur til að opnunartími gæti verið nokkrar klukkustundir fyrir hádegi, alla virka daga. Opnunartíma mætti takmarka við nokkrar klukkustundir fyrir hádegi, alla virka daga. „Hér hefur gengið vel í baráttunni við veiruna og tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi.“

Í samtali við Vísi greinir Hildur frá því að hún muni eftir helgi leggja fram tillögu í borgarstjórn um málið og segist ósammála Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, um að tilslakanir fyrir ákveðna hópa gætu reynst erfiðar og skapað vandræði.

„Mér finnst bara hálfgerður uppgjafartónn í því. Ég held að það sé ekki sérlega erfitt í framkvæmd að biðja fólk annað hvort að framvísa bólusetningarskírteini eða hreinlega, ef við værum bara að horfa á eldri borgara, skilríkjum,“ segir Hildur í samtali við Vísi.