Vilja stofna nýtt ráðu­neyti fyrir innlenda framleiðslu

Miðflokkurinn vill að stofnað verði nýtt ráðuneyti á Íslandi utan um málefni landbúnaðar- og matvælaframleiðslu í landinu. Þetta er ein af ályktunum flokksins sem samþykktar voru á aukalandsþingi í dag.

Þar er lögð áhersla á að innlend matvælaframleiðsla verði stórefld. „Stórefla þarf landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Hér liggur eitt af stærstu tækifærum þjóðarinnar til framtíðar þar sem heilnæmi matvæla, fæðuöryggi, matvælaöryggi og vistvæn orka á góðu verði munu spila lykilhlutverk,” segir í ályktuninni.

„Þá samþykkir aukalandsþing Miðflokksins einnig að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem fer með málefni landbúnaðar- og matvælaframleiðslu í landinu. Þá verði fylgt fast eftir ítarlegri skoðun á því misræmi sem komið hefur fram um innflutning og tollamál landbúnaðarafurða.”

Ein ályktun af landsþinginu felur þá í sér hugmynd um að nýtt þjóðarsjúkrahús verði byggt á Keldum í Reykjavík. Það verði aðalsjúkrahús landsins.

Einnig var það samþykkt á aukalandsþinginu að breyta fyrirkomulagi stjórnarinnar innan flokksins. Stjórnarmönnum verður fjölgað úr fjórum í sex og verður varaformannsembættið lagt niður. Vigdís Hauksdóttir var ein í framboði til varaformanns en hún sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að hún væri mótfallinn þessari breytingu. Hún ætlar ekki að bjóða sig fram í stjórnina á næsta landsþingi.