Hringbraut skrifar

Vilja láta leggja niður ríkisstofnun skipuð konum

13. janúar 2020
23:28
Fréttir & pistlar

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag var fjallað um að loka ætti tveimur ríkisstofnunum sem væru í dag algjörlega óþarfar og glti ríkið jafnframt sparað mikla fjármuni. 

Um er að ræða Umboðsmann skuldara og Fjölmiðlanefnd. Á þessum stofnunum starfa eingöngu konur.

Með tilvitnun í Morgunblaðið:

„Færri leita nú til ríkisstofnunarinnar Umboðsmaður skuldara en áður og kemur ekki á óvart. Stofnuninni var komið á fót í kjölfar falls bankanna þegar óvenjulega margir einstaklingar áttu í erfiðleikum með skuldir sínar. Sú staða hefur sem betur fer gjörbreyst, en ríkisstofnunin lifir áfram. Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir 2018, sem finna má í myndarlegri ársskýrslu stofnunarinnar á glæsilegum vef hennar, má sjá að skattgreiðendur lögðu henni til nærri 280 milljónir króna það ár. Á sama vef má sjá að ekki færri en 17 ríkisstarfsmenn eru hjá stofnuninni (allt konur – ætli ráðherra jafnréttismála hafi verið gert viðvart?).“

Og svo snúa Staksteinar sér að fjölmiðlanefnd:

“Önnur stofnun sem einnig varð til eftir fall bankanna er Fjölmiðlanefnd. Hún á rætur að rekja til aðlögunarkröfu Evrópusambandsins í umsóknarferlinu sem vinstristjórnin þvingaði fram. Full ástæða er til að vinda ofan af þeirri aðlögun með því að leggja niður Fjölmiðlanefnd, sem gerir ekkert annað en þvælast fyrir frjálsum fjölmiðlum og kosta skattgreiðendur stórfé,“

Að lokum spyrja Staksteinar að:

„Þessi tvö dæmi um ríkisstofnanir sem voru ekki til fyrir áratug og engin þörf er á sýna svo ekki verður um villst að hægt er að spara í rekstri ríkisins. Hvers vegna er það ekki gert?“