Vilja fjöl­skyldu­klefa í sund­laugum borgarinnar: „Þennan klefa­kost myndu mörg kjósa að nýta sér“

Mars M. Proppé, Elías Rúni, Alex Diljár Birkisbur Hellsing, Sól­veig Ástu­dóttir Daða­dóttir, Sindri Freyr Bjarna­son og Sigur Huldar Ellerup Geirs skrifa öll undir grein um sund­laugar borgarinnar í Frétta­blaðinu í dag.

„Kæra Sund­höll, ÍTR og stjórn­endur.

Ég mála ykkur mynd:

Það er sólar­lag að vetrar­kvöldi, létt snjó­fall og fólk flykkist að sund­laugum landsins fyrir fé­lags­skap og hlýju. Í sund­laugunum má finna nær full­kominn þver­skurð af sam­fé­laginu. Þar situr full­orðna fólkið í pottinum og ræðir mál­efni líðandi stundar. Í inni­lauginni leika sér leik­skóla­börn og ungir for­eldrar. Í kalda pottinum situr í­þrótta­garpurinn og í gufunni á fundur eldri borgara sér stað. Í djúpu lauginni synda ung­lingar á sun­d­æfingu, hvattir á­fram af þjálfara. Yngri syst­kini þeirra hlaupa í litlum hópum upp stigann í renni­brautina og trufla mikil­vægar sam­ræður ný­stúdentanna í grunna pottinum með hlátra­sköllum sínum,“ segir í grein hópsins.

Þau segja að þetta sé nær full­kominn þver­skurður en þó eru ör­fáir hópar sem ekki komast með í þessa í­mynduðu sund­ferð.

„Það eru þau sem ekki geta nýtt sér þá búnings­að­stöðu sem sund­laugin býður upp á. Í þann hóp falla m.a. for­eldrar með börn á fyrstu árum grunn­skóla, eins og kom upp í sam­fé­lags­um­ræðunni nú fyrir nokkrum mánuðum. Sam­kvæmt reglu­gerðum mega þau nefni­lega ekki fara með for­eldrum sínum í klefa séu þau af mis­munandi kynjum, heldur eiga þau að sækja klefa sem sam­samar kyni þeirra sjálfra, ein síns liðs, sem þau þora ekki endi­lega. Einnig falla í þann hóp öll þau sem ekki falla full­kom­lega að kynjat­ví­hyggjunni, svo sem inter­sex, trans og kyn­segin fólk. Þrátt fyrir að flestar sund­laugar séu nú komnar með sér­klefa þá er oft erfitt að nálgast þá. Einungis einn til tveir klefar eru til staðar í hverri laug (nema Laugar­dals­laug) sem þýðir að ef t.d. eld­ri­manna­klúbburinn (átta mann­eskjur) úr gufunni þyrfti allur að komast upp úr í gegnum sér­klefana tvo tæki það í það minnsta klukku­tíma, þar sem að­eins er rými fyrir eina mann­eskju í einu í hverjum klefa (á flestum stöðum). Þetta þýðir að ef hópur ung­menna sem væru öll kyn­segin ætlaði í sund saman þá væri það hægara sagt en gert, og í raun ekki hægt með góðu móti nema ein­hver þeirra færu í klefa sem ekki eru ætlaðir þeim.“

„Það er ekki auð­veld lausn til á þessu máli í flestum sund­laugum vegna þess hvernig húsa­kostur þeirra hefur verið byggður upp í kringum tvo jafn stóra hópa, karla og konur, og hannaður í kringum þarfir þeirra. Það er hins vegar ein sund­laug sem sker sig úr, en það er Sund­höll Reykja­víkur. Þar eru 2 sér­klefar og 5 stærri klefar: tveir úti (einn karla og einn kvenna) og þrír inni: einn karla (sá eldri) og tveir kvenna, (sá eldri sem er ný­upp­gerður og sá nýi sem var byggður á sama tíma og nýja úti­laugin.) Því liggur beint við að í Sund­höllinni verði einn þessara kvenna­klefa gerður að fjöl­skyldu­klefa. Slíkur klefi gæti því nýst fjöl­breyttum hópi fólks, eða í raun bara öllum þeim sem vilja, hvort sem það eru barna­fjöl­skyldur sem gætu þá hjálpast að með börnin, vina­hópar hin­segin ung­menna, já, eða bara eld­ri­manna­gengið úr gufunni. Enn væri þó hægt að nýta sér kynjuðu klefana tvo, bæði inni og úti, fyrir þau sem finna sig betur í því skipu­lagi. Jú, og þau sem þyrftu á að­búnaði sér­klefanna að halda hefðu þá greiðari að­gang að honum. Því væri þessi skipu­lags­breyting einungis til þess að gera laugina að­gengi­legri stærri hóp fólks. Þessi skipu­lags­breyting gæti einnig verið góð til þess að sýna fram á þörfina á slíkum fjöl­skyldu­klefum, en þá væri hægt að sjá hvort vert væri að leggja í fram­kvæmdir í öðrum sund­laugum í svipuðum stíl eða hvort sér­klefarnir sem til eru dugi til þess að mæta fjöl­breyttum þörfum allra þeirra sem ekki geta nýtt sér hina hefð­bundnu kynjuðu klefa.“

„Undir þessa beiðni skrifa hér með ofan­taldir aðilar og hvetjum við öll þau sem líst vel á hug­myndina til skrifa undir skjal sem er á vefnum change.org svo stjórn­endur ÍTR geti séð að þennan klefa­kost myndu mörg kjósa að nýta sér,“ skrifar hópurinn að lokum.