Vilja að atvinnurekendur sem greiði vísvitandi lægri laun fái sektir

Miðflokkurinn hefur lagt fram frumvarp þar sem heimilað verður að sekta atvinnurekendur sem vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greiða lægri laun en kveðið hefur verið á um. Birgir Þórarinsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að atvinnurekendum verði skylt að afhenda stéttarfélögum og trúnaðarmönnum á vinnustað gögn um kjör launafólks.

Í tilkynningu frá flokknum segir að bæði atvinnurekendur og fulltrúar launafólks hafi kallað eftir breytingunum.

Efling hefur sett svokallaðan launaþjófnað á oddinn nú í haust og hafa nokkrar deilur verið um hvort það sé rétta úrræðið. Samkvæmt kjaramálasviði Eflingar, sem telur um 27 þúsund félagsmenn, hefur kröfum fjölgað úr 200 á ári upp í 700 á síðustu fimm árum. Þá hafi heildarupphæðin hækkað mikið og hafi numið 345 milljónum króna á síðasta ári.