Vilhjálmur segir sorglegt að sjá áhugaleysi bæjarstjórnar í Reykjanesbæ á uppbyggingu NATO

„Það er í senn einkennilegt og dapurlegt að verða vitni að því áhugaleysi sem forsvarsmenn bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sýna þessum innviðaframkvæmdum á svæðinu og bera við að þeir þekki ekki málið, sem er rangt því ég hef sjálfur rætt málið við þá,“ segir Viljálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í pistli á vef Víkurfrétta í dag sem ber heitið Stóra NATO - fjárfestingamálið

„Umræða sem fer fram eftir tilfinningum og með upphrópunum skilar sjaldnast upplýsingum um hið efnislega mál og staðreyndirnar týnast. Við þekkjum margar slíkar umræður undanfarin ár og virðist sem ein slík sé farin af stað nú varðandi framgang varnarsamstarfs Norður-Atlantshafsbandalagsins, NATO, sem við Íslendingar vorum stofnaðilar að 4. apríl 1949.

Á grundvelli samstarfsins höfum við getað verið herlaus þjóð en samt tryggt varnir okkar. Samstarfið er enn mikilvægara nú eftir því sem málefni Norðurslóða þróast meira.

Hluti af framlagi okkar til samstarfsins hefur verið að leggja fram landsvæði, aðstöðu og fjárframlög til uppbyggingu innviða og það er skuldbinding af okkar hálfu. Skuldbinding þessi hefur skilað sér margfalt til baka inn í íslenskt velferðarsamfélag. Sem dæmi um innviði sem tengjast NATO-samstarfinu er ljósleiðari sem liggur hringinn í kringum landið og er grunnurinn að öflugu netsambandi um land allt. Flugbrautirnar á Keflavíkurflugvelli og flugumferðarstjórnunin er grundvöllur þeirrar mikilvægu tengimiðstöðvar sem Ísland er í flugi yfir Atlantshafið, núverandi hafnarmannvirki og olíubirgðastöðin í Helguvík þar sem mest allt flugvélaeldsneyti landsins fer í gegn. Ekki má gleyma öllum þeim björgunarbúnaði sem fylgdi veru varnarliðsins, eins og þyrlurnar, en mikið af þeim búnaði er hér enn.“

„Tillögur utanríkisráðherra um frekari uppbyggingu innviða í Helguvík og á öryggissvæðinu í Keflavík eru eðlileg framkvæmd varnarsamstarfsins sem munu koma íslenskum borgurum vel. Nái áformin fram að ganga munu þau herskip sem nú liggja við Reykjavíkurhöfn vegna loftrýmisgæslu og fleiru geta lagt að bryggju nær öryggissvæðinu. Þannig væri hægt að fá stærri, hagkvæmari og umhverfisvænni skip til landsins, og framkvæmdirnar því draga úr borgaralegum áhrifum af varnarsamstarfinu og minnka umhverfissporið.

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ þekkja mikilvægi NATO og hvaða umsvif fylgja starfseminni, eins og viðtal við Margréti Sanders á dögunum bar með sér. Þá höfum við þingmenn ásamt fulltrúum frá NATO og íslensku utanríkisþjónustunni verið í samskiptum við nærsamfélagið vegna mögulegrar uppbyggingar og framgöngu samstarfsins, eins og eðlilegt er með verkefni á svona stærðargráðu. Það er því í senn einkennilegt og dapurlegt að verða vitni að því áhugaleysi sem forsvarsmenn bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sýna þessum innviðaframkvæmdum á svæðinu og bera við að þeir þekki ekki málið, sem er rangt því ég hef sjálfur rætt málið við þá.“