Vilhjálmur reiður: „Þessi skýstrókur hefur farið víðar yfir“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að fyrirkomulag sjávarútvegskerfisins hafi skilið eftir sig eyðileggingarslóð um landið.

„Það má klárlega líkja fyrirkomulaginu í sjávarútvegsmálum við skýstrók sem hefur skilið eftir sig eyðileggingarslóð vítt og breitt um hinar ýmsu sjávarbyggðir.Ég veit að þessi skýstrókur hefur farið víðar yfir en hann fór yfir okkur Akurnesinga árið 2017 þegar allar okkar aflaheimildir voru sogaðar héðan í burtu og með skelfilegum afleiðingum,“ segir Vilhjálmur reiður á Facebook.

„Til upplýsinga þá voru árið1998 voru 21% bæjarbúa sem höfðu atvinnu við veiðar og vinnslu á sjávarafurðum. Þetta myndi þýða að upp undir 1500 manns hefðu beina atvinnu af veiðum og vinnslu sjávarafurða í dag, Það líka rétt að geta að í skýrslu til Auðlindanefndar sem gerð var 1999 kom fram að á Akranesi voru 59 fiskiskip og 4 skuttogarar.“

Árið 2004 hafi um 400 manns unnið hjá Haraldi Böðvarssyni við veiðar og vinnslu og fyrirtækið greitt rétt rúma 2 milljarða í laun núvirt eru þetta um 4,6 milljarðar. „Hugsið ykkur launatekjur sem nema 4,6 milljörðum eru farin úr okkar samfélagi. Í dag er allt farið. Ef við setjum þessar hamfarir í eitthvað samhengi en þetta væri eins og 7600 manns myndu missa vinnuna í Reykjavík.“

Hann segir að tap sveitafélagsins sé sett samhengi við Reykjavík miðað við höfðatölu þá er þetta eins og Reykjavík myndi missa útsvartekjur sem nema um 10 milljörðum á ári.

„Já þessi skýstrókur hefur svo sannarlega skilið eftir sig eyðileggingarslóð en ég minni stjórnmálamenn á að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, segir að markmið laga þessara sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Já, tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu og því þarf að skoða áhrifin sem þetta meingallaða fyrirkomulag í sjávarútvegi hefur haft hinar dreifðu byggðir þessa lands!“