Vilhjálmur reiður og tekur undir með Halldóri Benjamín: „Eins og afmælisblaðra hjá ofdekruðu barni“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gagnrýnir stjórnvöld harðlega og segir ríkisbáknið þenjast út stjórnlaust.

„Það er algjörlega ljóst að ríkisbáknið heldur áfram að blása út eins og afmælisblaðra hjá ofdekruðu barni sem á ofurríka foreldra í forréttindastöðu,“ segir Vilhjálmur á Facebook.

Starfs­fólki hjá hinu op­in­bera hef­ur fjölgað um níu þúsund frá sept­em­ber 2017 á sama tíma og starfs­mönn­um á einka­markaði fækkaði um átta þúsund. Halldór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði við mbl: „Þessi öfugþróun þarfn­ast skýr­inga frá hinu op­in­bera.“

Vilhjálmur tekur í sama streng og Halldór Benjamín:

„Ekki bara að þeim hafi fjölgað um 9 þúsund eða sem nemur 2250 starfsmönnum ár hvert heldur eru meðallaun ríkisstarfsmanna tæp 1 milljón á mánuði eða sem nemur með launatengdum gjöldum og öðrum umframréttindum 1,5 milljón á mánuði,“ segir hann.

„Á sama tíma og þessi afmælisblaðra ríkisstarfsmanna þenst út á kostnað íslenskra skattgreiðenda öskra stjórnvöld á verkalýðshreyfinguna sem semur um kaup og kjör lágtekjufólks á hinum almenna vinnumarkaði og krefst að verkalýðshreyfingin sýni ábyrgð í kröfum sínum til handa lágtekjufólki.“

Vilhjálmur segir að tekjur ríkisins sem þurfi til að halda uppi öllum þessum starfsmönnum komi frá skattgreiðendum, neytendum og fyrirtækjum. „Það er algjör lágmarkskrafa skattgreiðenda að gengið sé af virðingu um skattfé almennings og því sé ráðstafað þar sem þess er þörf og vissulega getur verið þörf fyrir að fjölga ríkisstarfsmönnum eins í löggæslu og heilbrigðiskerfinu. Hins vegar óttast ég að það sé stjórnsýsla og efrilög ríkisbáknsins sem sé fyrst og fremst að þenjast út.“