Vilhjálmur öskuillur: „Græðgin er svo yfirgengileg“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er ekki par sáttur við Eggert Þór Kristófersson, forstjóra Festar, sem rekur ELKO, Krónuna og N1. Tilefnið eru ummæli Eggerts og fréttir af hagnaði fyrirtækisins.

Eggert sagði í samtali við Innherja um daginn að hagvaxtarauki lífskjarasamninganna, sem kveður á um launahækkun vegna hagvaxtar þessa árs og tekur gildi frá maí á næsta ári, skjóti skökku við. „Þetta kemur okkur á óvart enda er landsframleiðsla á þessu ári ekki meiri en hún var árið 2019 og því ekki um aukningu hagvaxtar á mann frá undirritun lífskjarasamninga,“ sagði Eggert.

„Það eru bara tvær leiðir til að takast á við þessar hækkanir sem eru umfram framleiðniaukningu; að hækka vöruverð eða fækka starfsfólki.“

Vilhjálmur deilir svo á Facebook frétt Viðskiptablaðið um að rekstrarhagnaður fyrirtækisins hafi aukist um meira en milljarð króna milli ára.

„Þetta er fyrirtækið sem hótaði fyrir nokkrum dögum að reka starfsfólk eða hækka vöruverð ef það myndi þurfa að greiða svokallaðan kjarasamningsbundinn Hagvaxtaauka á næsta ári. Kom fram að kostnaðurinn af honum yrði í kringum 300 milljónir hjá fyrirtækinu,“ segir Vilhjálmur reiður:

„Já, munið að forstjórinn hótaði að hækka vöruverð eða reka starfsfólk ef það þyrfti að greiða Hagvaxtarauka til fólksins á gólfinu.“

Hann segir þetta yfirgengilega græðgi að vilja þá ekki hækka laun:
„Bullandi hagnaður hjá fyrirtækinu, en græðgin er svo yfirgengileg að forstjórinn hótaði að hækka vöruverð eða reka starfsfólk ef það þyrfti að standa við kjarasamninga lágtekjufólks og það í fyrirtæki sem lífeyrissjóðir launafólks á upp undir 70% í.“