Vilhjálmur hristir hausinn: „Er verið að grínast?“ – Rándýrar íbúðir, tillitsleysi og valdhroki

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, fer mikinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir meirihlutann í borgarstjórn harðlega.

Vilhjálmur, sem var borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins árin 2006 til 2007, bendir meðal annars á það í grein sinni að undanfarin ár hefur nánast eingöngu verið byggt íbúðarhúsnæði í háhýsum.

„Þegar ekið er um borgina blasa víða við háir íbúðablokkarturnar sem hafa verið byggðir á síðustu árum, þar sem þéttleiki bygginga er gríðarlegur. Engin svæði eru skipulögð fyrir lægri byggð, s.s. raðhús, parhús, sambýlishús eða einbýlishús. Lóðir undir sérbýlishús eru greinilega á bannlista hjá núverandi meirihluta, ekki síst lóðir undir einbýlishús. Afleiðingin er sú að þúsundir Reykvíkinga hafa flutt í önnur sveitarfélög.“

Vilhjálmur segir að há fjölbýlishús hafi vissulega verið byggð áður í Reykjavík en með sama hætti og undanfarin ár.

„Lóðaverð hefur hækkað verulega á síðustu árum og átt stóran þátt í stöðugt hækkandi byggingarkostnaði. Í öllum nágrannasveitarfélögum borgarinnar og nokkrum öðrum sveitarfélögum, aðallega á Suðurlandi, er fjölbreytni nýbygginga með allt öðrum hætti og tugþúsundir Reykvíkinga hafa valið að flytja þangað.“

Vilhjálmur segir að afleiðingin af stefnu meirihlutans í skipulags- og lóðamálum sé ekki síst sú að ungt fólk ræður ekki við kaup á rándýrum íbúðum í þessum háhýsum sem byggð hafa verið víða í borginni innan um miklu lágreistari byggð. Hann segir að hagkvæmar og ódýrar íbúðir í fjölbýli séu vart í boði á hinum almenna íbúðamarkaði í Reykjavík. Spyr Vilhjálmur hvort þetta sé stefnan sem meirihlutinn ætlar að viðhafa ef hann heldur stöðu sinni eftir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor.

„Nýlegt „afrek“ meirihlutans í íbúabyggð í Reykjavík er fyrirhuguð bygging 700 íbúða í Nýja-Skerjafirði, eins og meirihlutanum finnst heppilegt að nefna þetta svæði þétt við flugvöllinn, og hefur í för með sér stóraukinn akstur bifreiða á nærliggjandi svæðum. Engin bílastæði í húsagötum og heldur ekki bílastæði á lóð né bílskýli á einstökum lóðum. Bílageymsluhús, fyrir 400-450 bíla og reiðhjól, verða staðsett miðsvæðis í hverfinu. Þeir sem nota einkabílinn eiga að hjóla eða ganga til og frá heimkynnum sínum í bílageymsluhúsið. Fjölmennur hópur íbúa í Skerjafirði gerði alvarlegar athugasemdir við þessi byggingaráform, en mótmæli þeirra voru að engu höfð. Sömu sögu er að segja af mótmælum íbúa víðsvegar í borginni vegna byggingarframkvæmda í rótgrónum hverfum sbr. mótmæli íbúa í Bakka- og Stekkjahverfi vegna fyrirhugaðra háhýsa í Neðra-Breiðholti. Á íbúana er hlustað lítillega en í langflestum tilvikum ekkert gert með mótmæli og ábendingar þeirra líkt og gerðist með fyrirhugað BioDome-risamannvirkið í Elliðaárdalnum.“

Vilhjálmur spyr svo: „Er verið að grínast?“ og nefnir þéttingaráform meirihlutans í tillögum að hverfaskipulagi Bústaðahverfis. Kveða þau á að um 17 húsbyggingar meðfram Bústaðavegi við Grímsbæ í næsta nágrenni við fjölbýlishús á svæðinu. Segir Vilhjálmur að þessar hugmyndir séu algjörlega fráleitar og enn eitt dæmið um vanhugsuð þéttingaráform.

Vilhjálmur sakar borgaryfirvöld svo um valdhroka og yfirgang og nefnir uppbyggingu á þröngum reit milli Furugerðis og þétt við Bústaðaveg.

„Í upphaflegu skipulagi þessa reits var miðað við 4-6 íbúðir en samþykktar 30 íbúðir gegn háværum og vel rökstuddum mótmælum íbúa. Tillitsleysi meirihluta borgarstjórnar gagnvart íbúum á mörgum rótgrónum íbúasvæðum er víða í borginni, fer sívaxandi og mun aukast fái núverandi meirihluti endurnýjað umboð í næstu borgarstjórnarkosningum. Nýlega var haft eftir skólameistara Borgarholtsskóla að borgarstjóri hefði ekki svarað beiðni sinni um fund vegna fyrirhugaðrar byggingar nýs hjúkrunarheimilis á lóð Borgarholtsskóla í meira en tvö ár,“ segir Vilhjálmur sem endar grein sína á þessum orðum:

„Tillitsleysið algjört. Vonandi leggur niðurstaða komandi borgarstjórnarkosninga grunn að breyttum stjórnarháttum í borginni, þar sem valdhrokinn ræður ekki ferðinni.“