Vilhjálmur hafði rangt fyrir sér – Ingó hefur verið ákærður

Svo virðist sem sagnfræðin hafi eitthvað flækst fyrir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, lögmanni Ingólfs Þórarinssonar, þegar hann sagði í samtali við RÚV að Ingólfur hafi aldrei verið ákærður.

Vilhjálmur sagði við RÚV að hann hefði kært 32 nafnlausar sögur sem birtust á Tiktok-svæðinu Öfgar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi hann sent fimm kröfubréf vegna ummæla á netinu. Alls fór Vilhjálmur fram á að þeir sem létu ummælin falla greiði sér 250 þúsund krónur hver í lögmannskostnað, alls 1,25 milljónir króna.

„Vilhjálmur minnir á að Ingólfur hafi ekki verið ákærður eða dæmdur fyrir hegningarlagabrot „og hvað þá heldur fyrir kynferðisbrot“,“ var haft eftir Vilhjálmi á RÚV.

Það er hins vegar ekki rétt. Á þetta benti Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, á Twitter.

Ingólfur, best þekktur sem Ingó Veðurguð, var ákærður af lögreglustjóranum á Suðurlandi árið 2015. Ingó var gefið að sök að hafa aðfararnótt sunnudagsins 20. apríl 2014 klifrað í heimildarleysi og óleyfi yfir girðinguna umhverfis sundlaugarsvæðið við Íþróttamiðstöðina við Brimhólabraut í Vestmannaeyjum, og hafst þar við um nokkra stund, meðal annars farið í heitan pott. Brotið varðaði við 231. grein almennra hengingarlaga númer 19, frá 1940.

Málið var þingfest í byrjun október 2015 og var þess krafist af hálfu lögreglustjórans að Ingó yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Málið er ekki að finna inni á vef dómstóla og má því gera ráð fyrir að það hafi verið látið niður falla.

Ingó sagði í viðtali við Vísi á sínum tíma að þetta hefðu verið mikil mistök. „Það hefði verið fínt ef það hefði verið hægt að sjatla þetta mál. Semja um það. Ég sé eftir því að hafa verið að dröslast þarna inn í einhverjum partígír, mikil mistök, en það hefði verið fínt að geta bætt öðru vísi fyrir þetta en vera ákærður, ef það hefði verið hægt að finna einhverja að leið út úr þessu, og þá samið um þetta klúður.“