Vilhjálmur birtir sláandi upplýsingar um kostnaðarhækkanir íslenskra heimila á þessu ári

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir það sláandi hversu mikið kostnaður íslenskra heimila hefur aukist á síðustu tólf mánuðum.

„Við höfum verið að skoða að undanförnu á vettvangi Alþýðusambands Íslands kostnaðarhækkanir íslenskra heimila á síðustu 12 mánuðum og eru þær kostnaðarhækkanir gjörsamlega sláandi.“

Vilhjálmur segir að útgjöld heimilanna hafi hækkað frá 25 þúsund krónum á mánuði upp í allt að 128 þúsund krónur eftir búsetuformi.

„Til að hafa 128.000 kr. í ráðstöfunartekjur þyrftu laun að hækka um 190.000 kr. á mánuði að teknu tilliti til skatta og annarra gjalda. Því miður virðist það blasa við að fátt geti komið í veg fyrir alvarleg átök á íslenskum vinnumarkaði í ljósi þessarar grafalvarlegu stöðu sem nú er að herja á neytendur, launafólk og heimili.“

Vilhjálmur segir að stærstur hluti þessa vanda liggi í hækkun vaxta, hækkun matvælaverðs og annarra nauðsynjavara og þjónustu sem heimilin þurfa til að geta framfleytt sér og sínum.

„Þetta eru blákaldar staðreyndir og það er ljóst að ef stjórnvöld, Seðlabankinn, sveitarfélögin og Samtök atvinnulífsins átta sig ekki á þessari alvarlegu stöðu sem stór hluti launafólks er í þá mun fara illa.“