Vildi óska þess að hún hefði sömu áhrif og Kristján Loftsson

11. október 2020
13:23
Fréttir & pistlar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að á árunum 2015 til 2019 hafi verkalýðsfélagið sent frá sér kröfur vegna ógreiddra launa fyrir meira en milljarð króna.

Hún gagnrýnir harðlega að engar heimildir séu í lögum fyrir sektum eða viðurlögum vegna vangoldinna launa en Efling stendur nú í átaki þar sem stjórnvöld eru krafin um gera breytingu þar á.

„Stundum vildi ég óska þess að ég gæti, líkt og Kristján Loftsson, sent ráðherrum þessa lands tölvupóst og það myndi duga til þess að þessu yrði kippt í lag, að til yrði "pólitískur vilji" og gengið yrði í að uppræta þetta ömurlega ástand. Að ég gæti sent tölvupóst og í honum væri skjal viðhengt þar sem ég "hef sett inn breytingar þær, sem ég fer fram á að verði gerðar með rauðu“ líkt og forstjóri Hvals gerði þegar hann upplýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nákvæmlega hverju ætti að breyta í reglugerð sem hentaði ekki,“ segir Sólveig í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þá segir hún að stjórnvöld hafi lofað verkalýðshreyfingunni við undirritun Lífskjarasamningsins að lausn yrði fundin á málinu. Ekkert hafi þó bólað á henni enn þá.

Sólveig veltir því fyrir sér hvort það myndi virka að senda tilbúna tillögu á ráðherra ríkisstjórnarinnar og sjá hvort eitthvað gerist.

„En kannski er þeim bókstaflega skítsama. Og ekkert virkar. Ekki barátta, ekki trix. Það er hvort sem er fyrst og fremst aðflutt fólk sem verður fyrir þessu. Aðflutt verka og láglaunafólk. Ekki einu sinni með kosningarétt. Ekki fólk eins og Kristján Loftsson, ekki fólk sem tilheyrir eigna og valdastétt þessa lands. Bara vinnuaflið sem hefur það hlutverk að búa til gróða fyrir eigendur atvinnutækjanna og halda kjafti á meðan. Fólkið sem á að þola hvað sem er, líka það að laununum þeirra sé bókstaflega stolið.“

Vissuð þið að á árunum 2015 - 2019 sendi Efling frá sér kröfur vegna stolinna launa fyrir meira en milljarð króna?...

Posted by Sólveig Anna Jónsdóttir on Sunday, October 11, 2020