Vildi nýja rúm­dýnu vegna sigs eftir þriggja ára notkun: „Þetta er efni í heilan sjón­varps­þátt“

Grín­istinn Jón Gnarr rifjar upp heldur spaugi­legan úr­skurð kæru­nefndar um lausa­fjár- og þjónustu­kaupa á netinu í dag. Þar sem kaupandi rúm­dýnu krafðist þess að fá nýja rúm­dýnu eftir þriggja ára notkun þar sem dýnan hafði sigið frá því hann keypti hana.

Dýnan var keypt árið 2014 og árið 2017 fór eig­andinn að finna fyrir sigi í dýnunni og segir að það finnst greini­legur munur á dýnunni þegar farið sé í miðju hennar frá þeim stað sem oftast er legið á.

Hann hafði sam­band við seljanda sem sagði honum að mæla dýnuna með rétt­skeið og að ef sigið væri meira en 2 cm þá væri dýnan í á­byrgð vegna galla sam­kvæmt skil­málum fram­leiðanda. Eig­andinn kvaðst þá hafa tjáð seljanda að þar sem um Tempur dýnu væri að ræða þá fari dýnan alltaf upp aftur þegar staðið er upp af henni, og því sé ekki unnt að mæla sigið.

Í kjöl­farið voru tveir starfs­menn seljanda sendir til á­lits­beiðanda til að skoða dýnuna og sögðu þeir báðir að sögn á­lits­beiðanda að dýnan væri greini­lega mikið mýkri þar sem legið er heldur en í miðjunni.

Þrátt fyrir það segir eig­andinn að seljandi hafi neitað að bæta honum dýnuna þar sem ekki sé unnt að mæla 2 cm sig í henni, en slíkt skil­yrði er sett fyrir á­byrgð í skil­málum fram­leiðanda. Á­lits­beiðandi krefst þess að seljandi af­hendi honum nýja rúm­dýnu.

Seljandi dýnunnar sagði að þetta væri mýksta gerðin af Z dýnu og það sé eðli­legt að dýnur sem gerðar eru úr svampi mýkist við notkun. Því verði svæðin sem mest eru notuð mýkri en önnur svæði. Seljandi kveðst aldrei hafa séð eða selt slíka dýnu sem mýkist ekki á þeim svæðum sem mest er sofið á. Þá segir seljandi að galli teljist vera í dýnunni ef hún er sigin sem um nemur 2 cm eða meira, en minni þjöppun en það í dýnunni teljist full­kom­lega eðli­leg og náttúru­leg þróun á dýnunni.

Hall­dór Auðar Svans­son fyrr­verandi borgar­full­trúi Pírata gerir at­huga­semd við færslu Jóns og segir: „Þetta er efni í heilan sjón­­varps­þátt. Sé al­­gjör­­lega og ljós­lifandi fyrir mér ein­hverja Georg Bjarn­freðar týpu standandi í svona mála­­rekstri.“

Þá leggur Sig­rún nokkur til máls og segir að þetta mál sé „dá­sam­lega upp­skrúfað“