Viktor fór á veitingastað í Garðabæ með fjölskyldunni – Borgaði 3.320 fyrir þetta allt saman

Maður að nafni Viktor birti skemmtilega færslu í hinum fjölmenna og vinsæla Facebook-hópi Matartips um helgina.

„Þá sjaldan sem maður fer út að borða. Við fjölskyldan fórum á veitingastað í Garðabænum og erum alltaf þvílík ánægð eftir að borða þar,“ sagði Viktor sem taldi svo upp kostina við staðinn.

„Alltaf nóg af bílastæðum fyrir utan, þurfum aldrei að bíða í lengur en 7-8 mínútur eftir að fá matinn okkar þrátt fyrir að það sé brjálað að gera, þurfum aldrei að bíða eftir sætum, fínt úrvan af mat og drykkjum. Við konan fengum okkur bæði aðalrétt og eftirrétt, tvo gosdrykki, tvær sósur (og ábót) og barnamáltíð fyrir strákinn okkar. Komum öll vel södd út og það fyrir litlar 3.320 krónur,“ segir hann og upplýsir svo um nafnið á staðnum:

„Ef þið hafið ekki farið þangað áður þá mæli ég með veitingastaðnum í Ikea. Hann er topp næs.“