Viggó fengið nóg: „Hvenær á þetta svokallaða þríeyki að pakka saman?“

„Það er lágmarkskrafa að stjórnvöld svari því hversu lengi þessi bilun á að halda áfram. Hvenær, nákvæmlega, á þetta svokallaða þríeyki að pakka saman? Hvað, nákvæmlega, er markmiðið?“

Þessari spurningu varpar Viggó Örn Jónsson, ráðgjafi og einn stofnandi auglýsingastofunnar Jónsson & Le‘macks, í pistli á vef Vísis í dag. Óhætt er að segja að pistillinn hafi vakið nokkra athygli en í honum veltir hann ýmsu fyrir sér þegar kemur að sóttvörnum hér á landi á tímum COVID-19. Af lestri pistilsins að dæma er Viggó búinn að fá nóg og rúmlega það.

Í pistlinum, sem ber yfirskriftina Hvernig skal sjóða íslenskan frosk, bendir hann á að til að sjóða frosk lifandi þurfi að hita vatnið hægt.

„Annars hoppar hann uppúr. Það verður smátt og smátt eðlilegt að mega ekki mæta í vinnu, fara í sund, fara í ferðalög eða bjóða fólki heim til sín í mat. Hægt og hægt verður hugmyndin um eðlilegt líf fjarlægari. Það gleymist að fortíðin er ekki eðlileg. Það er nútíminn sem er eðlilegur. Þetta er nú líf okkar.“

Hann bendir svo á að eftir 11. september 2001 hafi verið stöðug umræða um hryðjuverk í öllum fjölmiðlum heimsins, dag eftir dag. Þetta hafi gert það að verkum að fólk ofmat hættuna af hryðjuverkum sem og hættuna á að verða sjálft fyrir hryðjuverkum.

„Fyrir vikið var fólk tilbúið að styðja umfangsmiklar og stórtækar aðgerðir eins og hina sturluðu innrás í Írak, hermenn á götum úti og njósnir hins opinbera á eigin borgurum.“

Viggó segir að síðastliðið ár hafi verið ár grímunnar. Samt hafi okkur til að byrja með verið sagt að þær virkuðu alls ekki en svo skyndilega voru þær orðnar lífsnauðsynlegar. „Fyrir utan verslanir stendur fólk og grefur upp krumpaða klúta úr vasanum sem eru búnir að vera þar vikum saman. Hvers vegna? Trúir því einhver í alvörunni að þetta geri gagn?“

Að mati Viggós eru grímurnar ekki sóttvarnarráðstöfun heldur tæki til að láta fólk hlýða. „Gera það sýnilegt að við eigum öll að lúta höfði fyrir ákvörðunum yfirvalda. Ákvörðun sem er fráleit í dag er orðin eðlileg og sjálfsögð ári seinna þegar við erum öll búin að hlýða henni nógu lengi. Þegar Inga Sæland vildi loka fólk inni í Egilshöll þótti það fyndið. Ári síðar er búið að hita nógu vel upp í vatninu til þess að sambærilegar ráðstafanir þykja fullkomlega eðilegar.“

Viggó segir að þetta gerist á sama tíma og búið er að bólusetja stærstan hluta þeirra sem eru í mikilli hættu. „Við búum nú í landi þar sem er eðlilegt að nágranni þinn hringi á lögregluna ef þú ert með fermingarveislu. Það er eðlilegt að loka þig inni í stofufangelsi án dóms og laga. Það er eðlilegt að banna þér að mæta til vinnu eða stunda nám. Það er eðlilegt að loka verslunum, veitingastöðum, líkamsrækt, flugvöllum og almenningssamgöngum.“

Viggó segir það vera lágmarkskröfu að stjórnvöld svari því hversu lengi þetta á að halda áfram og hvenær þríeykið eigi að pakka saman. Þá fá fjölmiðlar sinn skerf af gagnrýni frá Viggó og segir hann að þeir hafi einhliða flutt málflutning kerfisins og þess fámenna hóps sem tekur ákvarðanir.

„Ríkisútvarpið er ekki öryggisventill heldur áróðurstæki. Án umræðu er engin gagnrýnin hugsun og mörgum fannst það beinlínis fyndið þegar blaðamaður í áramótaskaupinu dirfðist að spyrja spurninga af yfirvöldum. Vel soðnir froskar eru hlýðnir froskar.“

Hér má lesa pistil Viggós í heild sinni.