Vigdís vill þagga niður í Gísla Marteini: Skorar á siðanefnd RÚV að skoða samninginn hans

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, skorar á siðanefnd RÚV að skoða mál Gísla Marteins Baldurssonar, sjónvarpsmanns og fyrrverandi borgarfulltrúa flokksins.

Fjörugar umræður fóru fram í Facebook-hópi íbúa Vesturbæjarins í gær í tengslum við innlegg Gísla Marteins um lækkun hámarkshraða í hverfum borgarinnar.

Margir lögðu orð í belg en eitt vakti sérstaka athygli Vigdísar, en það voru ummæli Gísla um siðanefnd RÚV eftir að Þ'ordís Pálsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á siðareglum stofnunarinnar. Í reglunum er býsna umdeilt ákvæði um að starfsfólk sem sinnir dagskrárgerð blandi sér ekki í umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þar á meðal á samfélagsmiðlum. Ýjaði Þórdís að því að Gísli væri að fara gegn þessum reglum en hann hefur sterkar skoðanir á borgarmálunum og er fylgjandi lækkun hámarkshraða.

Gísli Marteinn sagði að þetta væri lágkúruleg ábending af Þórdísi.

„Ég rek kaffihús við götuna, dætur mínar hafa þurft að fara yfir hana og aðrar nálægar íbúagötur alla tíð, þetta er mitt hverfi og ég hef skoðanir á því hvernig það hverfi er. Ég hef auk þess talað á íbúafundum, barist fyrir ýmsum framfaramálum, umferðaröryggismálum, setið í foreldraráðum, hverfisráðum og svo framvegis - en núna ætlar þú og þitt fólk í Sjálfstæðisflokknum að reyn að banna mér að tjá mig um hverfið útfrá siðareglum rúv sem ég skrifaði svo sannarlega ekki undir þegar ég var ráðinn heldur fékk ég þvert á móti skýrt frelsi frá þáverandi útvarpsstjóra til að ég gæti áfram tjáð mig um umhverfi mitt. Skárra væri það líka ef fólk mætti ekki hafa skoðun á skólamálum, umferðarmálum, deiliskipulögum eða hverju því sem varðar samfélagið sem við búum í.“

Það var síðasti hluti svarsins sem vakti athygli Vigdísar, að Gísli væri á einhverskonar sérsamningi. Af þessu tilefni segir Vigdís á Facebook-síðu sinni: Ber RÚV ohf ekki að gæta jafnræðis á milli starfsmanna? Ég skora á siðanefnd RÚV að taka málið upp og hefja frumkvæðisathugun enda á enginn ríkisstarfsmaður að vera á sérsamningum.“

Þess má geta að margir tjáðu sig undir færslu Þórdísar og komu Gísla Marteini til varnar. Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður á RÚV, sagði til dæmis: „Það er nú dálítið langt til seilst ef fólk sem starfar hjá RÚV má ekki hafa skoðanir á bílaumferð í hverfinu sínu!!!“

Þá sagðist Bogi Ágústsson ekki heldur hafa skrifað undir umræddar siðareglur enda hafi ráðningarsamband hans við stofnunina hafist mörgum árum áður en umræddar siðareglur voru samþykktar.

„Burtséð frá því tel ég mig ekki brjóta siðareglurnar með því að hafa skoðun á umferðarhraða þar sem ég bý og barnabörn mín búa. Ég gæti mín á því að nota ekki ávarpið ,,gæskur", sagði Bogi og vísaði í umdeildan úrskurð siðanefndar RÚV í máli Samherja gegn Helga Seljan. Í honum var Helga legið á hálsi fyrir að hafa kallað forystumann hjá Samherja „gæsk“.