Vigdís í ham: Þakkar sjálfri sér fyrir að fyrir að hafa fellt Dag – Valdagræðgi Þórdísar Lóu

Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Miðflokksins í borginni, var í miklum ham í viðtali við Fréttablaðið í gær um úrslit sveitastjórnarkosninganna.

„Ég náði því mark­miði mínu að fella þennan meiri­hluta og ég er stolt af því,“ sagði Vigdís sem ákvað að láta gott heita ef nokkuð stormasaman tíma í borgarstjórn þar sem hún lét meirihlutann oftar en ekki hafa fyrir sér.

Vigdís gagnrýndi meðal annars Stefán Pálsson, frambjóðanda VG í kosningunum, fyrir að segja að „djöfulgangurinn“ í henni hafi eflaust átt sinn þátt í að fella meirihlutann í borginni.

Vig­dís virtist ekki kunna því illa að henni væri þakkað að hafa fellt meiri­hlutann undir for­ystu Dags B. Eggerts­sonar.

„Mér tókst að fella meiri­hlutann með minni gagn­rýni, upp­ljóstrunum og á­bendingum um fjár­hags­stöðu borgarinnar og fleira. Ég vil meina að mál­flutningur minn hafi skilað því að meiri­hlutinn féll en að kenna mér um að ó­sam­ræmi flokkanna hafi ekki verið gert opin­bert, það er náttúr­lega hlægi­legt,“ sagði hún.

Vigdís gagnrýndi svo Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar, og sakaði hana um valdagræðgi. Kvaðst hún vera hissa á því að Þórdís og Dóra Björt Einarsdóttir, oddviti Pírata, hafi leyft Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að „líma þær tvær á sig“ eins og hún orðaði það.

„Ég held þetta sé valda­græðgi hjá Þór­dísi Lóu þegar hún hefði betur viður­kennt ó­sigur sinn og haldið sér til hlés,“ sagði hún við Fréttablaðið.

Bætti hún við að með þessu herbragði hafi Degi tekist að gera öðrum flokkum erfiðara fyrir hvað varðar myndun nýs meiri­hluta í borginni.

„Sá meiri­hluti sem mér myndi hugnast mér best er meiri­hluti Fram­sóknar­flokks, Sjálf­stæðis­flokks, Flokks fólksins og Við­reisnar, ef Þór­dís Lóa nær að slíta sig frá banda­laginu.“