Gunnar Egill Daníelsson skrifar

Viðskipti með jóni g. hefst að nýju í kvöld – rætt við forstjóra vivaldi og forstjóra nasdaq iceland

14. ágúst 2019
15:30
Fréttir & pistlar

Viðskiptaþáttur Hringbrautar, Viðskipti með Jóni G., hefur göngu sína að nýju í kvöld eftir sumarleyfi. Líkt og nafnið gefur til kynna fer Jón G. Hauksson sem fyrr með stjórn þáttarins.

Í þættinum í kvöld ræðir Jón G. við Jón von Tetzchner, fjárfesti og forstjóra Vivaldi. Vivaldi er íslenskur vafri þar sem persónuverndin er í fyrirrúmi. Jón von Tetzchner ræðir um helstu nýjungar vafrans, keppnina við Google, vaxandi gagnrýni á mikla söfnun upplýsinga um náungann hjá tæknirisunum vestanhafs og Gróttu, en Vivaldi hefur verið einn helsti styrktaraðili íþróttafélagsins undanfarin ár.

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, er einnig gestur í þættinum í kvöld. Hann ræðir um sumarið í Kauphöllinni, útlitið í efnahagsmálum, græn bréf og stuðning Nasdaq við Hinsegin daga, sem fara fram um þessar mundir.

Viðskipti með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 20:30.