Viðskiptastjórinn Bjarni Ben kom af fjöllum þegar Sigríður hjólaði í hann á Twitter

Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lét Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, finna fyrir því á Twitter í gær.

Sigríði urðu þó á ákveðin mistök þegar hún ætlaði að merkja ráðherrann í færslu sinni en merkti óvart alnafna hans, Bjarna Benediktsson viðskiptastjóra hjá Pipar, í staðinn.

Sigríður deildi frétt RÚV þar sem Bjarni tjáði sig um nýjustu afléttingar á sóttvarnarráðstöfunum og var ekki hrifinn af ummælum hans.

„Er þetta ósvífið grín? Telur @bjarniben að breytingar á sóttkví dragi úr ólögmæti banns við því að fólk komi saman fleiri en 10 á þessu landi? Að leiðin úr ólögmætinu sé að skattgreiðendur borgi tjón sumra?“

Stjórnmálamaðurinn Bjarni Benediktsson er með notendanafnið @Bjarni_Ben á Twitter og í því lágu mistökin. Viðskiptastjórinn Bjarni Ben tók þessu þó vel og benti Sigríði góðfúslega á að hann hefði ekkert með þetta að gera.

„Sæl Sigríður. Ég hef ekkert tjáð mig um breytingar á sóttkví. Baráttukveðjur, Bjarni Ben.“

Sigríður svaraði að bragði:

„Þá er nú kominn tími til - og þú ýtir þá við nafna þínum @Bjarni_Ben.“