Viðreisn kynnir sterka leiðtoga og gæti náð þingsætum í öllum kjördæmum

Viðreisn varpaði stórri bombu í gær þegar skýrt var frá því að Eiríkur Björn Björgvinsson myndi leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi í kosningunum næsta haust. Eiríkur gegndi stöðu bæjarstjóra á Akureyri frá 2010 til 2018 við miklar vinsældir og góðan orðstír. Fyrir seinna kjörtímabil hans sem bæjarstjóri lýstu allir flokkar sem buðu fram því yfir að alls óvíst væri hvernig meirihluti yrði myndaður en allir flokkar voru sammála um að ráða Eirík Björn hvernig sem meirihlutinn kynni að líta út. Þetta er fátítt og segir mikið um það mikla traust sem Eiríkur naut í starfi sínu.

Hann hefur einnig starfað á Egilsstöðum og verið bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs og bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. Þá er eiginkona hans fædd á Húsavík. Þannig er óhætt að segja að Eiríkur Björn hafi mikil tengsl víða um kjördæmið. Fyrir Viðreisn er mikill fengur að fá svo hæfan og öflugan mann til að leiða lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Flokkurinn fékk ekki mann kjörinn í kjördæminu í kosningunum 2017 en fékk aftur á móti þingmann kjörinn þar árið 2016. Ljóst er að flokkurinn stefnir nú ótrauður á að tryggja Eiríki Birni kosningu í haust.

Ástandið hjá sumum öðrum flokkum í kjördæminu er óvíst. Hjá Framsókn er Þórunn Egilsdóttir hætt vegna veikinda og sitjandi þingmaður sem vildi leiða lista flokksins náði því ekki en bæjarfulltrúi á Akureyri bar sigur úr bítum. Sama gerðist hjá Vinstri grænum þegar Steingrímur Sigfússon lauk ferli sínum sem leiðtogi flokksins í kjördæminu. Bjarkey Olsen þingmaður vildi leiða listann en tapaði í forvali fyrir Óla Halldórssyni bæjarfulltrúa á Húsavík. Hjá Sjálfstæðisflokknum á eftir að ákveða eftirmann Kristjáns Þórs Júlíussonar sem lætur af þingmennsku og forystu flokksins í kjördæminu í haust. Njáll Friðbertsson þingmaður sækist eftir að leiða listann en fleiri eru sagðir máta sig við þá stöðu. Óvíst er hvernig það verður leitt til lykta.

Viðreisn hefur einnig tilkynnt um að Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, muni leiða lista flokksins í Suðurkjördæmi. Það eru einnig mjög góðar fréttir fyrir flokkinn því Guðbrandur er þekktur og vel kynntur í kjördæminu, einkum á Suðurnesjum þar sem íbúafjöldinn er um 30 þúsund, meira en helmingur alls kjósendafjölda kjördæmisins. Bæði Samfylkingin og Vinstri græn tefla fram leiðtogum lista sinna af Suðurnesjum og mögulegt er að fleiri flokkar geri það einnig. Baráttan í kjördæminu mun því ekki síst snúast um hylli hins mikla fjölda kjósenda á Suðurnesjum. Í þeirri baráttu mun Guðbrandur Einarsson standa vel að vígi sem leiðtogi Viðreisnar í kjördæminu.

Þá liggur í loftinu að Guðmundur Gunnarsson, fyrrum bæjarstjóri á Ísafirði, muni leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Árið 2018 var hann ráðinn sem ópólitískur bæjarstjóri á Ísafirði af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Það samstarf entist til 2020 en þá lét Guðmundur af starfi bæjarstjóra. Guðmundur er með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum frá HR og BA próf í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Hann er 45 ára. Guðmundur þykir vera mjög frambærilegur maður og talið er að hann verði öflugur í leiðtogasæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Ekki er gert ráð fyrir öðru en að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Alþingismaður, muni áfram leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Sama gildir um Hönnu Katrínu Friðriksson, formann þingflokks Viðreisnar og þingmann flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þá má ætla að varaformaður flokksins, dr. Daði Már Kristófersson, forseti Hugvísindadeildar HÍ, muni leiða lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður en Þorsteinn Víglundsson var í því hlutverki áður en hann sagði af sér þingmennsku í fyrra til að taka við forstjórastöðu.

Með svo öfluga frambjóðendur í efstu sætum á listum Viðreisnar í öllum kjördæmum, ætti flokkurinn að eiga raunhæfa möguleika á að fá þingmenn kjörna í öllum sex kjördæmum landsins en það hefur honum ekki tekist áður.