Víðir: „Við erum bara komin í far­aldur“ – Fáir þeirra sem greindust í gær í sótt­kví

Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn hjá em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra segir að fáir þeirra sau­tján sem greindust með CO­VID-19 smit á síðasta sólar­hring hafi verið í sótt­kví.

Þetta sagði Víðir í við­tali við RÚV nú rétt fyrir há­degi. Eins og greint var frá í morgun greindust sau­tján innan­lands­smit síðasta sólar­hring sem er það mesta á einum degi síðan í byrjun apríl­mánaðar.

Víðir sagði að um væri að ræða tvo hópa, annars vegar fjöl­skyldu­tengsl og hins vegar hóp fólks sem kom saman í Vest­manna­eyjum um verslunar­manna­helgina til að skemmta sér. Sagði Víðir að öll smitin sem komu upp séu meðal íbúa höfuð­borgar­svæðisins.

Að­spurður hvort um væri að ræða nýtt hóp­smit sagði Víðir að réttast væri að tala um far­aldur. „Eigum við ekki bara að kalla það það sem það er? Við erum bara komin í far­aldur og Það er bara eins og við sáum í vetur að það eru að koma upp smit hér og þar um allt land.“

Víðir sagði alls ó­víst hvort harðari að­gerðir en þegar hefur verið gripið til hefðu getað komið í veg fyrir smitin. Ekkert bendi til þess að brotið hafi verið gegn reglum um sam­komu­bann heldur virðist fólk ein­fald­lega ekki virða tveggja metra regluna.

Víðir sagði enn fremur að til skoðunar væri að leggja ein­hverja hinna smituðu inn á sjúkra­hús en eins og staðan er núna er enginn þeirra 109 sem eru með virkt smit á sjúkra­húsi.