Víðir um þríeykið: „Við fögnum gagnrýni“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hefur staðið vaktina í baráttunni gegn COVID-19 í rúmt ár ásamt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Ölmu Möller landlækni og hafa þau með tímanum hlotið viðurnefnið þríeykið. Yfirleitt hefur fólk tekið þeim fagnandi en þó virðast ekki allir á eitt sáttir með þær aðgerðir sem grípa hefur þurft til.

Aðspurður í Kastljósi kvöldsins um hvort þau finni fyrir að fólk sé orðið þreyttara en í upphafi og að orðræðan hafi breyst sagði Víðir að þau hafi alltaf fagnað gagnrýni.

„Okkar nálgun á það hefur ekkert breyst en við höfum líka sagt það að fólk sem segir „ég verð að fá að spyrja erfiðra spurninga“ þá verður fólk líka vera tilboð fá erfið svör,“ sagði Víðir og bætti við að þau bendi á staðreyndir málsins sem fólkið sjálft hafi ekki gert.

„Það sem mér finnst dálítið vont núna er það að hvort sem fólk er að tala með sóttvarnargerðunum eða á móti þeim, maður fær yfir sig einhvern einhvern orðaflaum sem eru engum sæmandi og ég held að það sé líka eitthvað sem allir geta tekið til sín,“ sagði Víðir enn fremur. „Erum við að taka þátt í samtali sem er bara niðurdrepandi og niðurbrjótandi fyrir samfélagið okkar eða erum við að taka þátt í uppbyggilegu samtali.“

Að sögn Víðis hefur þó alls ekki öll gagnrýni verið slæm og vísar til þess að oft hafi gagnrýni haft góða hluti í för með sér, ekki síst við breytingar á samkomutakmörkunum líkt og gert var í dag.

„Ég held að þetta sé sextugasta skiptið sem við erum að breyta reglunum í kringum þetta og í mjög mörgum tilfellum höfum við fengið með ábendingar sem hafa gert hlutina betri,“ sagði Víðir en bætti við að það væri mikilvægt að gagnrýnin væri uppbyggjandi.