Víðir þakkar samstöðu þjóðarinnar fyrir fá smit

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir þjóðina hafa staðið sig frábærlega gagnvart sóttvarnalögum en hann segir samstöðu þjóðarinnar á tímum COVID-19 hafa verið hreint út ótrúleg.

„Ástæðan fyrir því að við erum stödd á þessum stað í dag, með þessi örfáu smit og nánast engin, er náttúrulega bara samstaða þjóðarinnar og ekkert annað,“ sagði Víðir í kvöldfréttum RÚV í kvöld þar sem farið var yfir fjölda brota á sóttvarnalögum frá því að faraldurinn hófst.

Fólk eigi að vita hvernig á að hegða sér

Að því er kemur fram í frétt RÚV um málið hafa 236 brot á sóttvarnalögum verið skráð í málaskrá lögreglu frá 1. mars í fyrra, þegar faraldurinn náði fótfestu hér á landi, og til 31. janúar síðastliðinn. Þá greindi Víðir frá því að tilkynningarnar um brot hafi farið yfir þrjú þúsund.

„Flest málin eru leyst með leiðbeiningum og menn fá smá tilsögn í því hvernig á að gera hlutina betur en þetta er auðvitað talsvert mikill fjöldi miðað við að það þekkja eiginlega allir hvernig á að hegða sér í þessu,“ sagði Víðir.

„Verst þykir manni ef það kemur smit upp úr þessu. En það sem betur fer eru ekki mörg tilfelli þannig að við getum rakið einhverjar hópsýkingar upp úr sóttvarnarbrotum. En auðvitað eru örfá svoleiðis tilfelli.“