Víðir opnar sig upp á gátt: Kjafta­sögurnar erfiðar – Vildi bara koma hreint fram

„Mér finnst ó­trú­lega leiðin­legt að verða fyrir rætnu skít­kasti og kjafta­sögum. Ein­hverju sem er ó­sann­gjarnt. Það fer illa í mig,“ segir Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varnar­sviði ríkis­lög­reglu­stjóra, í við­tali við Kjarnann sem birtist um helgina.

Í við­talinu ræðir Víðir meðal annars um starf sitt sem hefur verið gríðar­lega um­fangs­mikið í CO­VID-19-far­aldrinum. Þá ræðir hann meðal annars um eigin veikindi en hann smitaðist sem kunnugt er af CO­VID-19 á síðasta ári og veiktist nokkuð mikið.

Eftir því sem liðið hefur á far­aldurinn hefur borið á því að sam­staðan meðal þjóðarinnar vegna sótt­varnar­að­gerða hefur farið þverrandi. Í við­talinu kemur meðal annars fram að heiftin, sem stundum hefur sést, hafi beinst að honum per­sónu­lega.

„Já. Ég er náttúr­lega þannig per­sóna að ég er frekar opinn og gæti jafn­vel alveg talist við­kvæmur, eða hvernig sem á að orða það. Ég tek mál­efna­lega gagn­rýni ekki nærri mér, finnst hún frá­bær og nauð­syn­leg. Hún hjálpar mér að hugsa. En mér finnst ó­trú­lega leiðin­legt að verða fyrir rætnu skít­kasti og kjafta­sögum. Ein­hverju sem er ó­sann­gjarnt. Það fer illa í mig.“

Víðir veiktist sjálfur af CO­VID-19 í lok nóvember og á­kvað hann í kjöl­farið að skrifa færslu á Face­book þar sem hann lýsti að­draganda veikindanna. Í upp­talningu sinni á hverjir voru gest­komandi á heimili hans taldi hann einnig upp fólkið sem býr með honum. Tóku margir því þannig að heimili hans hafi verið eins og lestar­stöð í mið­borg Lundúna þegar raunin var önnur.

„Mig langaði svo að koma hreint fram í öllu. En svona kom þetta út. Og margir misstu sig yfir þessu,“ segir hann meðal annars og bætir við að honum hafi liðið ömur­lega yfir að hafa smitast.

„Alveg ömur­lega. Þú getur rétt í­myndað þér, að vera búinn að tala um þetta allan þennan tíma, að hvetja fólk til að passa sig og gæta að sótt­vörnum, og svo smitast ég sjálfur.“