Víðir glímir við heilaþoku eftir COVID-smitið

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segist allur vera að koma til eftir að smitast af COVID-19 í lok nóvembermánaðar. Víðir veiktist nokkuð hastarlega og var hann meðal annars sendur í rannsóknir á Landspítalann vegna sýkingar í lungum.
Víðir var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun þar sem hann ræddi meðal annars veikindin og eftirköstin sem margir sem hafa smitast hafa talað um.
„Ég er allur að koma til. Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag. Þrátt fyrir að hafa verið í þessu, talað við fullt af fólki og fylgst vel með hvernig þetta er að fara með fólk þá kom það mér verulega á óvart hvað þetta tók verulega á í mínu tilfelli.“
Víðir segir að hann hafi orðið veikari en hann hefur orðið af nokkurri flensu og allskonar skrýtnir verkir hafi fylgt veikindunum. „Vöðvaverkir, beinverkir, ég fékk ofsakláða í lappirnar og svo fékk ég háan hita sem má segja að séu flensueinkenni, en allt einhvern veginn miklu ofsafengnara. Svo fæ ég ofan í lungun og er með einhverskonar lungnabólgu eða sýkingu í lungunum og þennan brjálæðislega hósta,“ segir Víðir sem áður hefur fengið lungnabólgu en ekki svona svakalegan hósta eins og hann fékk.
Víðir var í einangrun á fjórða viku vegna veikindanna og taldi að hann myndi jafna sig nokkuð fljótt og örugglega. Nú þegar tæpir tveir mánuðir eru liðnir síðan hann greindist er hann enn að glíma við eftirköstin. Hann tekur til dæmis eftir því að honum er mjög naumt skammtað starfsþrek.
„Þegar líður að seinni partinum verð ég mjög þreyttur,“ sagði hann og bætti við að það skrýtnasta væri að upplifa ákveðna heilaþoku sem er eitthvað sem hann hefur ekki upplifað áður.
„Ég var allan daginn í gær á Seyðisfirði og var orðinn mjög þreyttur þegar ég kom í bæinn og ég þurfti bara að einbeita mér á leiðinni heim að keyra bara ekki fram hjá,“ sagði Víðir í viðtalinu í gærmorgun og bætti við að hann hafi þurft að minna sjálfan sig á að hann þyrfti bráðlega að beygja til vinstri eða hægri. „Maður er ekki eins skarpur og maður er vanur,“ sagði hann.
Víðir sagði það vissulega hafa verið áfall að greinast með veiruna og það sé það sjálfsagt fyrir alla sem veikjast. Hann sagði þó mikilvægt að hafa í huga að það ætlar sér enginn að veikjast og enginn eigi að skammast sín fyrir að greinast með veiruna.
Deila þessari færslu

Öflugur skjálfti að stærð 4,3

Öflugur skjálfti að stærð 4,3
