Víðir búinn að fá mörg sím­töl síðustu daga: Glatað þegar fólk þykist vera að sýna á­byrgð

Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn segist hafa fengið nokkurn fjölda sím­tala að undan­förnu frá fólki sem kvartað hefur undan fyrir­komu­lagi á fjölda­sam­komum þar sem fleiri en 500 manns koma saman.

Við slíkar að­stæður þarf að skipta gestum í hólf og er mjög mikil­vægt að engin blöndun sé á milli hólfanna. Tryggja þarf að hvert og eitt hólf sé með sinn inn­gang og út­gang, salerni og þá verða hólfin að hafa sér­staka miða- og veitinga­sölu svo eitt­hvað sé nefnt.

Á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag sagði Víðir að víða væri pottur hvað þetta varðar, að minnsta kosti ef marka mætti á­bendingar sem hann hefur fengið.

„Þetta er auð­vitað sett í sótt­varnar­skyni og það gengur þvert á til­gang fjölda­tak­markana að hafa 500 manna hólf ef þau geta blandast fram og til baka eins og fólki sýnist,“ sagði Víðir á fundinum um leið og hann hvatti lands­menn til að sýna á­byrgð.

„Þetta mun auð­vitað ekkert virka ef við sýnum ekki á­byrgð. Skipu­leggj­endur við­burða þurfa að sýna á­byrgð með því að bjóða upp á skipu­lag sem sam­ræmist þessum leið­beiningum. En við öll sem mætum á staðinn, við þurfum líka að sýna á­byrgð,“ sagði Víðir sem rifjaði upp sím­töl frá fólki undan­farna daga þar sem honum hefur verið bent á þetta.

„Og ég hef spurt við­komandi: Hvað gerðirðu? Fórstu þá ekki bara í burtu? „Nei ég þvældist á milli hólfanna.“ Það er náttúr­lega alveg glatað að þykjast vera að sýna á­byrgð með því að vera að kvarta yfir þessu og sýna svo ekki neina á­byrgð á staðnum. Það getur enginn gert þetta fyrir okkur. Við verðum að gera þetta saman og það þurfa allir að taka þátt í þessu.“