Viðar birtir mynd úr Grafarvogi: Er þetta allt nagladekkjunum að kenna?

Viðar Freyr Guðmundsson, rafeindavirki og fyrrverandi Miðflokksmaður, segir að það sé í raun engin furða að svifrykið svífi yfir götum borgarinnar miðað við mynd sem tekin var í Grafarvogi fyrir skemmstu.

Viðar deilir meðfylgjandi mynd í Facebook-hópnum Gagnrýnum meirihlutann í Reykjavík¸ en eins og nafnið gefur til kynna er núverandi borgarstjórnarmeirihluta fundið flest til foráttu í umræddum hópi.

Á þessum árstíma fer jafnan af stað umræða um svifryk og götuhreinsanir og bendir Viðar á að fjörugar umræður hafi einmitt farið fram í hópnum um svifryk nýlega. Birti Viðar af því tilefni meðfylgjandi mynd.

„Hér sýnist mér að hægt væri að minnka svifryk um þúsundir prósenta með einföldu hreinsunarátaki. Af hverju ætli borgaryfirvöld láti ekki hendur standa fram úr ermum í stað þess að tala um nagladekk? Þau halda eflaust að borgarar séu mjög heimskir eða taki ekki eftir þessu,“ segir Viðar sem segir erfitt að ímynda sér ástæðuna fyrir þessu.

„En það er eflaust engin góð ástæða. Er þetta kannski meðvitað sinnuleysi í pólitískum tilgangi? Eru menn bara búnir að sætta sig við sóðaskapinn, því að blóraböggullinn hentar þeim?“