Veröld marteins hrundi: missti hús og fyrirtæki – hjónabandið þoldi ekki álagið – seinna lést sonur hans og eiginkona

„Við misstum húsið okkar, ævistarfið fór út um gluggann, hjónabandið þoldi þetta ekki og við skiljum 2010. Ég hélt þá að ég væri búin að upplifa það versta. Við reyndum að búa okkur til nýtt líf í sitthvoru lagi en þá veiktist konan mín og dó eftir tveggja ára baráttu við krabbamein árið 2012. Þetta var gríðarlega erfiður tími, og eftir að aldraðir foreldrar mínir féllu frá á þessu tímabili þá átti ég eftir að missa son minn árið 2015.“

Þetta segir Marteinn Ólafsson sem starfað hefur sem Olíubifreiðastjóri. Saga Marteins hefur áður ratað í fjölmiðla og vakið athygli. Hann gekk í gegnum erfiða tíma en sagði að bjartara væri framundan. Hann er einn af ótal Íslendingum sem hefur sagt sögu á Facebook-síðunni Fólkið í Eflingu, sem nú berst fyrir hærri launum. Þetta er saga Marteins:

 „Foreldrar mínir eru að vestan og fluttu í bæinn. Pabbi var virkur í verkalýðsbaráttunni á sínum tíma, hann var prentari á Þjóðviljanum en sjórinn togaði í hann og hann keypti sér trillu og fór í útgerð. Þau eignuðust 10 börn og níu komust á legg. Ég ólst upp hjá góðu frændfólki á Tálknafirði, þannig var þetta bara, það þurfti að fæða marga munna og ég fór vestur og kom til baka 11 ára, kláraði gagnfræðaskólann og 17 ára flutti ég með foreldrum mínum til Sandgerðis. Við erum fjórir bræður og fimm systur, þrír okkar bræðra stunduðu sjóinn.

Ég var 15 ára þegar ég byrjaði á dagróðrabátum heima í Sandgerði. Seinna fór ég á togara og ég hef líka prófað frystitogara sem er mjög ólíkt lífinu á hinum bátunum, það er meira eins og verksmiðjulíf, eins og að vera í frystihúsi. Ef þú ert ekki uppalinn á frystitogara þá eru litlar líkur á því að þú tollir þar.

Ég hætti á sjó þegar við vorum á veiðum undir Krýsuvíkurbjarginu og strönduðum undir morgunn þann 20 febrúar árið 1991. Þetta varð mannbjörg, en ég slasaðist og var tíma að jafna mig. Þetta var vendipunktur og ég fór ekki aftur á sjóinn.

„Hetjur hafsins“ við erum aldnir upp við þessa hugmynd og teljum okkur vera hetjur, svo kemur maður í land og þá áttar maður sig á því hvað þetta er takmarkað líf og hvað þú hefur misst af miklu. Ég var vel giftur og átti fjögur börn og kunni ekki að vera í landi. Hafði vanist því að vera úti á sjó með tíu körlum ár eftir ár. Vernduð veröld, allar áhyggjurnar skildar eftir heima hjá konunni, engir gemsar í þá daga. Miklar vökur oft á tíðum, unnið stundum í 18 tíma og sofið í sex tíma en ég kunni þessu ákaflega vel.

Eftir að ég kom í land vann ég ýmislegt og ég tók meirapróf og vorið 1998 byrjaði ég í olíunni á Keflavíkurflugvelli. Fyrst á birgðastöðinni fyrir flugvélaolíuna hjá Skeljungi, síðan tók Esso við henni og þá fór ég að flytja eldsneyti á trukkum og fylla á flugvélarnar. Árið 2005 kom ég hingað til Skeljungs í Örfirisey og hef síðan keyrt olíuna út um allt land.

Það var með mig eins og marga aðra að ég lét glepjast af góðærinu, ég stofnaði lítið fyrirtæki og keypti mér minn eigin bíl og vann á honum fyrir Skeljung og sinnti einnig öðrum verkefnum. Það gekk mjög vel, vonum framar. En það voru blikur á lofti og það voru einhverjar bjöllur sem sögðu að þetta væri ekki í lagi en maður hélt bara áfram og einn góðann veðurdag var bankakerfið farið á hausinn.

Veröldin hrundi, ég skuldaði fyrirtækið að stórum hluta, átti sjálfur útistandandi mjög háar upphæðir sem ég gat ekki innheimt og þá gat ég ekki staðið við mínar skuldbindingar og svo byrjaði boltinn að rúlla. Ég lagði bílnum og vann fyrir Skeljung og launin fóru í að borga af fyrirtækinu sem gekk ekki nema X lengi. Á endanum gafst ég upp, sjálfhætt og allt rúllaði yfir. Ég var með erlent lán og það margfaldaðist á nokkrum dögum, það var ekkert elsku mamma hjá bankanum. Þetta voru svo svívirðilegar upphæðir að ég man þær ekki lengur.

Við misstum húsið okkar, ævistarfið fór út um gluggann, hjónabandið þoldi þetta ekki og við skiljum 2010. Ég hélt þá að ég væri búin að upplifa það versta. Við reyndum að búa okkur til nýtt líf í sitthvoru lagi en þá veiktist konan mín og dó eftir tveggja ára baráttu við krabbamein árið 2012. Þetta var gríðarlega erfiður tími, og eftir að aldraðir foreldrar mínir féllu frá á þessu tímabili þá átti ég eftir að missa son minn árið 2015.

Í kjölfarið á andláti sonar míns þá þakkaði ég fyrir hvern einasta dag sem ég komst í gegnum, bara að geta afborið daginn var afrek. En ég þurfti að gera eitthvað meira, og til þess að ná stjórn á hugsunum mínum notaði ég öndun. Ég vissi ekkert um jóga eða neitt slíkt en ég komst að því að ef ég einbeitti mér að önduninni þá gat ég brotið upp erfiðar hugsanir mínar, og ég notaði þessa aðferð við hvert tækifæri. Ég varð að læra að hugsa lífið upp á nýtt og niðurstaðan var sú að hætta að hafa áhyggjur af lífinu. Ég fór að njóta hvers einasta dags og vera til staðar fyrir mitt fólk og þegar uppi er staðið eru það þau sem skipta máli en ekki einhverjir veraldlegir hlutir.

Ég tjáði mig líka mikið, en ég er svo heppin að eiga góða að, systkinin mín, börnin mín og vinnufélagana. Að tala var mjög hjálplegt og ég lifi ákaflega góðu lífi í dag, ég nýt hinna þriggja barnanna minna, ég hugsa um það sem ég hugsa um missinn á hverjum degi en ég hef lært að njóta þess sem ég hef í lífinu.

Á vinnustaðnum mínum er góð blanda af ungum og eldri mönnum, mönnum með tilfinningar. Já, karlmenn eru líka með tilfinningar. Í svona hóp eins og á mínum vinnustað, þá verður það til, gagnkvæm virðing og maður er mjög ríkur að eiga svona menn að. Þú tekur þér ekki traust, trúnað eða vináttu þú þarft að öðlast þetta. Aðeins tvær konur eru að keyra, tvær sem eru í sumarafleysingum annars erum við bara karlmenn og ég skil ekkert af hverju þær eru svona fáar.

Ég hef ekki lengur þessar áhyggjur sem maður hafði þegar ég var ungur. Við búum í gríðarlegu neysluþjóðfélagi sem er drifið áfram af hagnaði en ekki hugsjónum. Ég hef reynslu og þroska til þess að hafna og velja hvort ég vil taka þátt í þessu.

Eina sem er öruggt í lífinu er “fæðingin, græðgin og dauðinn” sem ég lét tattóvera á hægri handlegginn minn en á hinn handlegginn stendur skrifað:

Af því ég get það!