Verkalýðsleiðtogar með fortíðarþrá

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með framgöngu Drífu Snædal forseta ASÍ og fleiri verkalýðsleiðtoga undanfarið. Afar sérkennilegt var að fylgjast með baráttu verkalýðsforystunnar fyrir hönd flugfreyja gegn Icelandair á síðasta ár þegar félagið barðist fyrir lífi sínu. Lengst af var ekkert sjáanlegt markmið með þeim harða slag gegn flugfélaginu annað en að tryggja öllum umbjóðendum Flugfreyjufélagsins atvinnuleysisbætur því að það er nákvæmlega það sem gerst hefði ef ekki hefðu að lokum náðst samningar.

Eitthvað virðist sumum verkalýðsforingjum vera í nöp við íslensk flugfélög, þó að óumdeilt sé að íslensk félög, bæði Icelandair og hið nýja Play, borga flugliðum sínum mun hærri laun en erlend flugfélög sem keppa við þau um farþega milli Íslands og annarra landa.

Í fyrra var Icelandair voðalegt fyrirtæki sem kúgaði starfsfólk sitt til afarsamninga og formaður VR hótaði fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og beitti skuggastjórnun, sem hann hefur fengið ávítur fyrir, til að kúga fulltrúa launþega í stjórn lífeyrissjóðsins til að kjósa gegn þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair í september í fyrra. Ragnar hafði sitt fram. Lífeyrissjóðurinn keypti ekki. Verðið í útboðinu var 1 króna á hlut. Nú er verð hvers hlutar yfir 1,6 krónum, þannig að skuggastjórnun formanns VR hefur kostað sjóðsfélaga drjúgan skilding

Í ár er það Play, sem verkalýðshreyfingin beinir spjótum sínum að. Allt í einu eru samningar Icelandair, sem í fyrra voru afarkostir, orðnir fyrirmyndin sem fara ber eftir. Ekki nóg með það, heldur reynir ASÍ nú að neyða Play til að semja við tiltekið stéttarfélag þrátt fyrir að félagið sé með fullgilda samninga við annað félag.

Nýlega var seldur 35 prósenta hlutur ríkisins í Íslandsbanka. Athyglisvert var að hlusta á málflutning Guðrúnar Johnsen, sérstaks „efnahagsráðgjafa“ VR, í aðdraganda útboðsins. Allt var fundið til foráttu; ekki rétti tíminn til að selja, engir ásættanlegir kaupendur fengjust, bíða yrði þar til Covid yrði afstaðið, verðið yrði of lágt o.s.frv. Útboðið fór fram og tókst glimrandi vel. Tugþúsundir Íslendinga eru nú hluthafar í Íslandsbanka og hafa hag af góðu gengi bankans.

Val VR á efnahagsráðgjafa er raunar allsérstakt, ekki síst þegar horft er til þess að Guðrún Johnsen sat í stjórn Arion banka frá árinu 2010 til 2017, þegar henni var kastað út úr stjórninni. Hún var varaformaður stjórnar bankans þegar bankinn hirti heimilin af þúsundum fjölskyldna og rak út á götu, hirti hvert fyrirtækið á fætur öðru og kom í hendur vildarvina.

Barátta Drífu Snædal, Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Ragnars Þórs Ingólfssonar gegn fyrirtækjum sem greiða félagsmönnum þeirra laun er í raun einstæð. Erfitt er að sjá annað markmið með baráttunni en það að koma fyrirtækjum á borð við Icelandair, Play og Síldarvinnslunni á kné. Það rímar svo sem við kröfur Drífu Snædal um stórhækkaðar atvinnuleysisbætur. Ekki verður betur séð en að hún berjist frekar fyrir atvinnulausa en launafólk vegna þess að barátta hennar gegn íslenskum fyrirtækjum og atvinnulífi virðist hafa þann tilgang helstan að fækka sem mest launafólki og færa það yfir á atvinnuleysisskrá.

Þetta er mikil breyting frá því sem var. Fyrir rúmum 30 árum var gerð þjóðarsátt hér á landi sem markaði tímamót á íslenskum vinnumarkaði og í efnahagslífi landsins. Þjóðarsáttin var þríhliða samkomulag milli ríkisins, atvinnurekenda og samtaka launþega um stöðugleika, sem koma skyldi í stað kollsteypu- og óðaverðbólgusamfélagsins sem hafði ríkt hér á landi allt frá því að Ísland hlaut fullveldi 1918, og ekki síst frá lýðveldisstofnun, 1944.

Þjóðarsáttin hefði aldrei verið gerð með vanstillta og árásargjarna verkalýðsleiðtoga í brúnni hjá ASÍ og öðrum helstu launþegasamtökum. Þjóðarsáttin kallaði á fórnir launafólks en bar árangur og frá 1990 hefur í raun verið eitt mesta velsældartímabil íslensku þjóðarinnar – ekki vegna stórfelldra launahækkana heldur vegna stöðugleika og framleiðniaukningar. Núverandi forysta ASÍ reynir hins vegar allt hvað aftekur að rjúfa sáttina og endurreisa kollsteypuhagkerfið. Í hverra þágu er það?

Þetta nýja forystufólk verkalýðshreyfingarinnar virðist hugsa meira um að gera sig gildandi í vinstri pólitík en að berjast fyrir grundvallarhagsmunum umbjóðenda sinna. Mætti það taka Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, sér til fyrirmyndar. Vilhjálmur hefur einbeitt sér að hagsmunum síns fólks og náð miklum árangri. Frá því að hann komst til forystu hefur hann barist af hörku fyrir umbjóðendur sína með góðum árangri og öðrum verkalýðsforingjum fremur barist fyrir efnahagslegum stöðugleika hér á landi og sýnt skilning á því að versti óvinur venjulegs launafólks er kollsteypusamfélagið.

Kannski þykir voða sniðugt að verkalýðsleiðtogar steyti einatt hnefann framan í fyrirtækin í landinu, hvernig sem aðstæður eru í samfélaginu og hvort sem tilefni er til eða ekki. Það virðist vera leiðin til áhrifa innan ASÍ. En það er ekki leiðin að kjarabótum og öryggi launþega á vinnumarkaði. Það er ávísun á skelfilegt fortíðarástand sem kostaði miklar fórnir fyrir launafólk að komast út úr fyrir 30 árum.

-       - Ólafur Arnarson