Verður Kristrún ein af þeim stóru?

Kristrún Frostadóttir alþingismaður, sem nú hefur gefið kost á sér til að taka við formennsku í Samfylkingunni, gæti átt eftir að rífa flokkinn upp í fylgi ef hún velur rétta pólitíska braut til að feta eftir.

Ef henni tekst það þá mun hún skipa sér á bekk með þeim stóru í Samfylkingunni, Össuri Skarphéðinssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en á undanförnum árum hefur flokkurinn lotið fremur veikri og ráðvilltri forystu.

Í kosningunum haustið 2021 hlaut Samfylkingin einungis 10 prósenta fylgi. Á góðum degi ætti flokkurinn að geta náð 20 prósent fylgi, og jafnvel meiru, og það hlýtur að vera markmið Kristrúnar þegar hún tekur við formennsku í Samfylkingunni eftir tvo mánuði. Ekki er gert ráð fyrir að hún fái mótframboð, alla vega ekkert sem máli getur skipt. Jafnvel var búist við að Dagur Eggertsson borgarstjóri gæfi kost á sér í framboð en hann hefur talað skýrt um það að hann sækist ekki eftir formennsku í flokknum að svo stöddu og bent á að stjórnmálaflokkur verði að hafa rödd inni á Alþingi til þess að geta náð árangri. Flest bendir til þess að Dagur snúi sér að landsmálunum í næstu kosningum sem verða í síðasta lagi eftir 3 ár – en gætu auðvitað orðið mun fyrr miðað við veika stöðu ríkisstjórnarinnar um þessar mundir.

Rétt er að rifja upp að Samfylkingin mældist mest með 32 prósent fylgi í formannstíð Össurar og var um tíma með fylgi í kringum þrjátíu prósent. Eftir aðild sína að hinni illræmdu vinstri stjórn árin 2009 til 2013 hrundi fylgið og fór niður fyrir sex prósent sem skilaði honum einungis þremur þingmönnum í kosningunum árið 2016. Við þær aðstæður þurfti Logi Einarsson að taka við formennsku í Samfylkingunni, sem var ekki auðvelt og alls ekki það sem hann ætlaði sér.

Burtséð frá þessu öllu er alveg eðlilegt að gera ráð fyrir að jafnaðarmannaflokkur eins og Samfylkingin ætti að geta náð um fimmtungi fylgis í Alþingiskosningum sem gæfi 12 þingmenn. Nú hefur Samfylkingin einungis 6 þingmenn þannig að slíkur árangur ætti að gjörbreyta stöðu flokksins og auka líkur á því að hann kæmist að nýju í rikisstjórn.

Til þess að Kristrún Frostadóttir geti náð svo góðum árangri með Samfylkinguna verður hún að feta rétta braut með flokkinn. Hún er einungis 34 ára og á sitthvað ólært í stjórnmálum. En hún hefur marga kosti, er eldskörp, áræðin og árásargjörn. Hún hefur ekki hlíft andstæðingum sínum og er líkleg til að láta bæði Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna fá það óþvegið í rökræðum þegar hún verður komin í stöðu formanns Samfylkingarinnar.

Kristrún þarf þó að gæta þess að færa Samfylkinguna ekki um of til vinstri. Flokkurinn er miðjuflokkur, krataflokkur sem ætti að staðsetja sig hægra megin við miðjuna. Takist Kristrúnu það ætti fylgið að streyma til Samfylkingar frá Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Fram til þessa hefur tónninn í málflutningi Kristrúnar verið full vinstri sinnaður, sem kemur reyndar talsvert á óvart miðað við bakgrunn hennar í bankakerfinu og hjá Viðskiptaráði Íslands. Mögulega hefur hún verið að spyrna sér frá fortíðinni með þessum hætti en það getur verið hættulegt að ganga of langt í þeim efnum.

Með öflugri Samfylkingu gæti skapast raunhæfur möguleika á að mynda miðjuríkisstjórn sem tæki mið af núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur – miðjubandalag með Samfylkingu, Viðreisn, Framsókn og Pírötum. Slíkt yrði spennandi kostur enda er löngu kominn tími til að hvíla landsmenn á valdasetu Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Þeir flokkar hefðu gott af dvöl í stjórnarandstöðu – rétt eins og er nú hlutskipti þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur.

- Ólafur Arnarson.