Verður Hildur Björnsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins?

Sjálfstæðismenn í Reykjavík fara nánast í gegnum sorgarferli þessa dagana vegna myndunar meirihluta fjögurra miðjuflokka í borgarstjórn. Ljóst er að örlög flokksins verða áfram þau að sitja í valdalausum minnihluta eins og verið hefur. Ekki er spennandi að horfa fram á næstu fjögur árin í þvi hlutverki.

Hildi Björnsdóttur, sem leiddi lista flokksins í kosningunum, verður ekki kennt um ástandið. Hún þótti standa sig að mörgu leyti vel. Kom yfirleitt fram í viðtölum og kappræðum af festu og ákveðni.

Vandi flokksins felst fremur í því að flestir gera sér ljóst að flokkurinn í Reykjavík er klofinn í tvær fylkingar á bak við ráðherrana Guðlaug Þór annars vegar og Áslaugu Örnu hins vegar. Einar Þorsteinsson, verðandi borgarstjóri og leiðtogi Framsóknar, hefur talað hreint út um það að efast megi um að Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn sé stjórntækur vegna klofnings eins og kom skýrt fram á síðasta kjörtímabili og virðist ætla að halda áfram inn í nýhafið kjörtímabil.

Vitað er að Hildur Björnsdóttir hefur mikinn metnað og ætlar sér mikilvægt hlutverk á sviði stjórnmála. Því eru það hennivitanlega mikil vonbrigði að sitja föst í minnihluta í borginni næstu fjögur árin.

En hún gæti látið reyna á möguleika sína til að komast í æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn mun halda landsfund næsta haust enda hefur ekki verið efnt til landsfundar í þrjú ár, meðal annars vegna veiruvandans. Enginn yrði undrandi á því þótt Bjarni Benediktsson stigi þá niður úr valdastóli formanns. Ekki er sjálfgefið hver yrði arftaki hans. Margir gera ráð fyrir því að núverandi varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, myndi freista þess að fá stuðning landsfundar í formannsembættið. Einnig er talið líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson gæfi kost á sér en hann á vísan stuðning víða innan flokksins. Þá hefur verið talað um að þriðja nafnið ætti eftir að koma fram á sjónarsviðið –jafnvel öllum að óvörum.

Gæti Hildur Björnsdóttir verið þessi þriðji aðili? Því ekki? Hún hefur metnaðinn og viljann. Hildur er menntaður lögfræðingur og hefur komið að stjórnmálastarfi frá unga aldri þegar hún gegndi formennsku í Stúdentaráði Háskóla Íslands þar sem hún þótti vera skeleggur forystumaður. Hún sat í borgarstjórn og borgarráði allt síðasta kjörtímabil fyrir Sjálfstæðisflokkinn í minnihluta og vann fyrsta sætið í prófkjöri fyrir nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar.

Hildur er komin af miklum sjálfstæðismönnum í föðurætt og framsóknarfólki á Akureyri í móðurætt. Sveinn Björnsson, kaupmaður og forseti ÍSÍ, var afi hennar en hann tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem formaður Fulltrúaráðsins og varaborgarfulltrúi. Afi hennar í móðurætt var Gísli Konráðsson, forstjóri Útgerðarfélags Akureyringa og mikill áhrifamaður í Framsóknarflokknum á Akureyri. Móðurbróðir Hildar var Axel heitinn Gíslason, aðstoðarforstjóri SÍS og síðar forstjóri VÍS. Hann var góður og gegn framsóknarmaður. Eiginmaður Hildar er Jón Skaftason, sonur Skafta Jónssonar Skaftasonar alþingismanns Framsóknar frá 1959 til 1978.

Stjórnmálafólk og stjórnmálaáhugi er því allt í kringum Hildi Björnsdóttur. Hún hefur sýnt að áhuga og metnað skortir hana ekki og hún hefur ótvíræða forystuhæfileika. Því skyldi hún ekki láta reyna á möguleika sína til að gegna formennsku eða varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að landsfundi næsta haust?

- Ólafur Arnarson.